145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

útboð á tollkvótum.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir fyrst og fremst eins og ég skil ræður hennar, það skiptir verulega miklu máli þegar við smíðum kerfi fyrir landbúnaðarmálin, hvort sem er innan lands eða varðandi innflutninginn, að við hugum að stöðu neytenda. Undir það get ég tekið heils hugar. Með hvaða hætti verslunin mun mögulega geta skilað þessu til neytenda á ég eftir að átta mig á en það væri svo sannarlega eftirsóknarvert að sjá það gerast á einhvern hátt.

Þegar ég segi að líklegt sé að tollkvótinn fari á því verði sem neytendur eru tilbúnir að greiða fyrir vöruna felst líka í því að ef ekkert er greitt fyrir vöruna, eins og til dæmis fyrir tollkvótann, eins og ætti við í hlutkesti, kann að vera rými fyrir aukna álagningu vegna eftirspurnar (Forseti hringir.) eftir vörunni. Það er eitt af því sem þyrfti að horfa til. En ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, við erum að ræða mál sem er ekki beint á málefnasviði mínu. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta neytendamál sem ég tel að sé mikilvægt.