145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

styrkur til kvikmyndar um flóttamenn.

[15:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að spyrja um stjórnmálaskoðanir mannsins sem stendur fyrir þessu verkefni. Ég var heldur ekki að spyrja um stjórnmálaskoðanir eða fortíð formanns Bandalags íslenskra listamanna. Ég var alls ekki að spyrja um það. Ég var að spyrja um það hvernig þessum fjármunum er úthlutað úr opinberum sjóðum. Ég skil það að ríkisstjórnin hefur ráðstöfunarfé og sérstakan lið til þess og hún getur veitt fé í sérstök verkefni. Mér finnst hins vegar allnokkuð undarlegra að utanríkisráðherra fari með fjármuni af þessari tegund úr fjárlagalið á þróunarsamvinnuskrifstofu.

Ég spyr: Hvernig geta menn sótt um styrki af þessu tagi? Er nú utanríkisráðherrann farinn að ákveða hvernig námsefni á að vera í skólum? Aftur segi ég. Verkefnið getur verið (Forseti hringir.) verðugt, en farið er fram hjá öllum almennum leikreglum og jafnræði, sem kallað er, í þessu þjóðfélagi.