145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.

337. mál
[15:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja þetta viðkvæma mál á dagskrá í þessum fyrirspurnatíma. Ég ætla að vinda mér í að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er spurningin hvort haldið sé miðlægt utan um kærð kynferðisbrot, meint og dæmd, gegn fötluðu fólki. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er þetta röð upplýsinga sem eru að koma fram. Ef við lítum til þeirra upplýsinga sem við fengum frá ríkislögreglustjóra og kynntum okkur hjá ríkissaksóknara er ekki haldið miðlægt utan um kærð kynferðisbrot gegn fötluðu fólki. Hins vegar kom fram, eins og við reyndar þekkjum núna frá embætti ríkissaksóknara, að samkvæmt beiðni embættisins hefur skráningu í málaskrá lögreglu verið breytt á þann veg að nú verður unnt að halda utan um kærð nauðgunarbrot gegn fötluðu fólki sem á við alvarlega geðsjúkdóma eða andlega fötlun að glíma, samanber 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel þetta mjög til bóta.

Að sögn embættis ríkissaksóknara var skráningin með þessum hætti tekin upp í lok ársins, 2. desember, þannig að þetta er rétt að fara af stað. Ekki er um að ræða sérstaka skráningu á öðrum kynferðisbrotum en nauðgunarbrotum gagnvart andlega fötluðum einstaklingum og ekki er haldin sérstök skrá um kynferðisbrot gagnvart líkamlega fötluðum einstaklingum. Í því þarf líka að líta til þess að ýmis skilgreiningaratriði þarf að hafa í huga þegar við tölum um hópinn fatlaðir einstaklingar.

Um skráningu í málaskrá lögreglu er rétt að taka fram að um hana gilda lögreglulög nr. 90/1996 og reglugerð þar að lútandi um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Spurt er hvort skrá eigi öll kynferðisbrot gegn fötluðum sérstaklega í öllum tilvikum. Hafa þarf í huga að það verður aldrei hægt að skrá þau af algjörri nákvæmni, m.a. vegna þess, eins og ég sagði áðan, að skilgreining á fötlun er ekki alltaf einföld. Svo má líka velta fyrir sér hvort rétt sé að skrá þetta eitthvað frekar en brot gegn öðrum hópum ef fötlun hefur ekki lagalega eða refsiréttarlega þýðingu. Hér erum við komin svolítið lengra inn í þessa umræðu. Án þess að nokkur afstaða sé tekin til þessara álitamála er þetta álitamál. Brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eru algengustu málin þannig að það er enginn vafi á því í mínum huga að þessi skráning er mjög til bóta.

Spurt er hvort, að mati ráðherra, komi til greina að hefja sérstaka rannsókn á umfangi slíkra brota. Ég tel þetta málefni mjög brýnt, hef lýst því yfir og fagna allri umræðu um það sem er mikilvæg. Ég vil sérstaklega nefna að í samstarfsyfirlýsingu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess frá 18. desember 2014 kemur fram að ráðherrarnir og ráðuneytin séu einhuga um að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess. Í yfirlýsingunni segir að efnt skuli til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, lögreglu og ákæruvalds í því skyni að efla aðgerðir gegn hvers kyns ofbeldi. Átakinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Að hluta til áttum við þessa umræðu líka nýlega þegar við töluðum um breytingar á almennum hegningarlögum að því er varðar ofbeldi í nánum samböndum.

Í yfirlýsingu ráðherranna er lögð áhersla á að koma á svæðisbundnu samráði sem meðal annars er ætlað að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála og þá sérstaklega í tengslum við ofbeldi gagnvart börnum og fötluðu fólki. Í kjölfar þessarar yfirlýsingar var skipaður stýrihópur með fulltrúum fyrrgreindra ráðherra sem hefur það hlutverk að undirbúa aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu. Er það samstarf leitt af velferðarráðuneytinu og þessari vinnu miðar vel áfram.

Í síðustu viku var haldinn 100 manna samráðsfundur með öllum þeim sem koma að aðgerðum gegn ofbeldisbrotum og hefst úrvinnsla úr þeim mjög fljótlega.

Ég tel rétt að bíða niðurstöðu stýrihópsins og sjá til hvaða aðgerða hann telur nauðsynlegt að grípa. Í framhaldinu verða svo stjórnvöld að meta tillögurnar og hrinda þeim aðgerðum í framkvæmd sem líklegastar eru til að bera sem mestan árangur til að stemma stigu við þessu sannkallaða böli sem hvers kyns ofbeldi er.