145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.

337. mál
[16:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Á síðustu vikum höfum við farið í gegnum ansi margar fyrirspurnir og svör sem lúta að kynferðislegu ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Þetta er alveg gríðarlega mikilvæg umræða og ég tel mjög mikilvægt að halda vel utan um skráningarnar, sérstaklega kannski til að byrja með vegna þess að staða fatlaðs fólks er almennt veikari í samfélaginu. Þessi hópur er berskjaldaðri fyrir ofbeldi en aðrir.

Ég hef fengið nokkur svör frá ráðherrum sem ég hef beint fyrirspurnum til. Það er að tínast til alls konar þekking á þessum málum. Ég held að það sé rosalega mikilvægt fyrir okkur í framhaldinu að gera eitthvað með þetta, að taka þetta saman. Ég velti því upp hvort það eigi að vera í formi skýrslu, a.m.k. að við (Forseti hringir.) tökum þessar upplýsingar saman nú þegar öll þessi svör eru komin og við sem þing höldum utan um þetta sameinað.