145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

rannsóknir á kynferðisbrotum gegn fötluðu fólki.

337. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er líka ánægð með að menn séu að stíga einhver skref fram á við í því að reyna að ná betur utan um þetta. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessum stýrihópi.

Þó að hópurinn fatlað fólk sé gríðarlega víður og ólíkur innbyrðis, og það er heiti á mjög fjölbreyttum hópi einstaklinga, vil ég brýna hæstv. ráðherra til að við látum ekki vandann við að skilgreina hvernig hópurinn lítur út tefja okkur eða koma í veg fyrir að við söfnum mikilvægum upplýsingum. Það má safna þessum upplýsingum án þess að þær séu endilega persónugreinanlegar. Ég hef trú á, og veit að ráðherrann er sammála mér um það, að upplýsingar séu grunnurinn að því að við getum ráðist í alvöruaðgerðir og tekið upplýstar ákvarðanir um framhaldið.

Eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi áðan er möguleiki að valdeflingin sem felst í því fyrir einstaklinginn að fá notendastýrða persónulega þjónustu geti valdið því að staða hans innan samfélagsins verði sterkari. Þar af leiðandi ætti að draga úr ofbeldi en við vitum það samt ekki. Það er nokkuð sem væri líka mjög áhugavert fyrir okkur að skoða.

Til að taka þessa meðvituðu ákvörðun þurfum við þessar upplýsingar og ég held að það sé verið að stíga rétt skref hér. Það er komin ákveðin skilgreining á bæði hvers lags ofbeldi og hvaða hópur það er sem hæstv. ráðherra nefndi áðan sem á að halda utan um. Það er ágæt byrjun. Síðan skulum við taka næstu skref, stækka hópinn, fjölga líka tegundum ofbeldis og fá þannig ítarlegri upplýsingar þannig að við getum í fyrsta lagi varið þennan hóp betur fyrir ofbeldisfólki og síðan aftur brugðist rétt við þegar ofbeldi (Forseti hringir.) á sér stað.