145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

meðferð lögreglu á skotvopnum.

392. mál
[16:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi taka undir að afar mikilvægt er að gegnsæi sé í þessum málum og að því höfum við í ráðuneytinu unnið, að auka það af því að það er grundvöllur þess að traust ríki milli þjóðfélagsþegna, okkar allra hér, og síðan lögreglunnar í hennar mikilvægu störfum.

En svo ég vindi mér í að svara fyrirspurnum hv. þingmanns, ég vona að ég nái að gera það innan tímamarka, þá aflaði ráðuneytið vegna fyrirspurnarinnar umsagnar ríkislögreglustjóra.

Spurt var: „Hverjar þurfa aðstæður að vera til að uppfyllt séu skilyrði um að lögreglu sé heimilt að grípa til skotvopna sem ákveðið hefur verið að verði tiltæk í lögreglubifreiðum?“ — Og þá vil ég taka fram, sem sagt í afmörkuðum lögreglubifreiðum, sem er afar mikilvægt.

Ég lít svo á að reglurnar hafi verið túlkaðar mjög þröngt. Um heimild til að vopna lögreglu með skotvopnum gilda ákvæði 30. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð um notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999 sem gefin var út á síðasta ári, nr. 256/2015, af ráðherra.

Þær reglur ber að túlka með hliðsjón af 14. gr. lögreglulaga sem kveður á um að lögregla megi aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Sömu reglur gilda um skilyrði fyrir heimild lögreglu til að grípa til skotvopna hvort heldur vopn eru geymd á lögreglustöð eða í þessum tilteknu lögreglubifreiðum.

Í 30. gr. framangreindra reglna koma fram þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi en þau eru:

Í fyrsta lagi. Þegar talið er að fyrirliggjandi verkefni krefjist þess eða aðstæður eru slíkar að vopnaburður telst nauðsynlegur, svo sem ef ætla má að lögreglumaður þurfi að eiga við mann sem ástæða er til að ætla að sé vopnaður og líklegur er til að nota skotvopn eða önnur banvæn vopn.

Í öðru lagi. Þegar ríkislögreglustjóri hefur samþykkt eða mælt fyrir um að vopna beri lögreglumenn til að leysa tilgreind verkefni eða við sérstakar aðstæður, svo sem við öryggisgæslu eða verkefni sérstakra sveita lögreglu. Lögreglustjóra er heimilt í samráði við ríkislögreglustjórann að gefa fyrirmæli um vopnaburð, sem gilda um ákveðinn tíma.

Ekki eru sett tímamörk fyrir þessar heimildir í reglunum enda ráðast þau af því verkefni sem er til ákvörðunar um að lögreglumenn skuli vopnast.

Í neyðartilvikum getur hæstráðandi lögreglumaður á hverjum stað gefið fyrirmæli um að lögreglumenn vopnist. Þegar verkefni krefjast vopnunar skal vopna að minnsta kosti tvo lögreglumenn hverju sinni en lögreglumenn skulu ekki starfa einir að vopnuðum aðgerðum nema í neyðartilvikum.

Í öðru lagi er spurt hver meti aðstæður og heimili eða hafni notkun skotvopna eftir atvikum og hvernig samskipta- og verklagsreglur séu um þetta.

Samkvæmt 30. gr. þessara tilgreindu reglna er það lögreglustjóri sem gefur fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast skotvopnum. Hæstráðandi lögreglumaður á hverjum stað getur, eins og fram hefur komið, í neyðartilvikum tekið þessa ákvörðun og er þá miðað við að um sé að ræða tilvik sem ætla megi að líf liggi við.

Vopn eru ávallt geymd í þar til gerðum læstum hirslum hvort sem þau eru á lögreglustöð eða í þessum afmörkuðu lögreglubifreiðum. Nánar er kveðið á um varðveislu vopna og verklagsreglur í framangreindum vopnareglum.

Í þriðja lagi er spurt um hversu mörg tilvik hafi komið í störfum lögreglu undanfarin tíu ár sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og hvernig þau lýsi sér.

Tiltæk gögn um fjölda tilfella í störfum lögreglu sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna og varða almenna lögreglu ná einungis til tímabilsins frá árinu 2011 og til dagsins í dag, og verður því að miða við það tímabil hér. Á tímabilinu hefur almenn lögregla alls vopnast 43 sinnum vegna verkefna, þar af atvikatilkynninga sem bárust lögreglu. Þess skal getið að fleira en eitt lögreglulið eða lögregluembætti getur vopnast vegna sama málsins, til dæmis almenn lögregla og sérsveit, og telja þau öll til heildarfjölda tilvika.

Um er að ræða verkefni sem metin voru þess eðlis að nauðsynlegt væri að vopnbúa lögreglumenn ýmist vegna upplýsinga um að í viðkomandi tilvikum væru vopnaðir menn á ferð eða um var að ræða öryggisgæslu, sem verður að hafa í huga að eru inni í þessum tölum.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur frá 1. janúar 2011 til 18. desember 2015 vopnast 393 sinnum vegna verkefna og atvikatilkynninga sem bárust lögreglu. Sveitin starfar samkvæmt reglugerð 774/1998 um sérsveit ríkislögreglustjórans og (Forseti hringir.) er eina lögreglusveit landsins sem alltaf hefur skotvopn tiltæk.