145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

meðferð lögreglu á skotvopnum.

392. mál
[16:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil svara núna þeirri spurningu sem mér gafst ekki tími til að svara áðan. Í fjórða lagi var spurt hvernig háttað verði eftirliti með skotvopnanotkun lögreglu og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt.

Það er skráð hvenær vopn eru tekin úr vopnakistum og hvers vegna. Um atvik þar sem lögreglan vopnast eru skráðar skýrslur. Ríkissaksóknari fer með rannsókn mála á grundvelli 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga ef þörf krefur þar sem lögregla beitir skotvopnum.

Tekið skal fram að nú stendur yfir vinna á vegum ráðuneytisins um endurskoðun laga og reglna um eftirlit með lögreglu og það er nokkuð sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á áðan og skal tekið undir það með honum að nauðsynlegt er að því máli sé komið áfram.

Ég er ekki með á takteinum niðurbrot á þeim tölum sem ég nefndi í svari mínu. Eins og ég sagði áðan höfum við í fyrsta lagi ekki tölur nema þetta langt aftur í tímann. Mér finnst algjört grundvallaratriði að um þessi mál séu góð gögn til, en vera kann í einstaka tilvikum að um sé að ræða trúnaðargögn. En að gögnin séu að minnsta kosti til sem grundvöllur að réttum ákvörðunum og slíku. Ég get spurst fyrir um hvort hægt sé að fá nánari útlistun á þessu.

Ég vil líka í lokin nefna og ítreka það hér sem ég sagði í fyrra svari mínu að við í ráðuneytinu teljum þegar litið er til þessara lögreglubifreiða, sem var kannski rótin að þessari fyrirspurn og hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið, að þeim sjónarmiðum hefur alveg verið skýrt komið til skila af okkar hálfu að þær reglur sem menn hafa tækifæri til að kynna sér og er brýnt, á þeim eru ytri mörk (Forseti hringir.) skýr. Það er ekki þannig að hægt sé að teygja þær, það þarf að túlka þær þröngt. Þá er ég að líta til fjölda lögreglubifreiða, hæstv. forseti.