145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

skatteftirlit og skattrannsóknir.

389. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi það sem hér er spurt um, hvort aukin framlög til skatteftirlits muni skila sér í betri skattheimtu, þá tel ég að við höfum gert rétt með því að viðhalda auknu rekstrarfé til skatteftirlits á undanförnum árum. Erfitt er að segja um það fyrir fram og nákvæmlega að hve miklu leyti það skilar sér í beinhörðum innheimtum. Ég ætla að rekja nokkur sjónarmið um þessi efni.

Hér á landi hafa lögbundin viðbrögð skattyfirvalda annars vegar falist í almennu skatteftirliti ríkisskattstjóra og hins vegar í skattrannsóknum skattrannsóknarstjóra. Skatteftirlit ríkisskattstjóra felst meðal annars í vettvangseftirliti þar sem rekstraraðilar eru heimsóttir eftir ákveðnu vali en einnig í greiningu á frávikum í almennum skattskilum einstaklinga og lögaðila. Skattrannsóknir eru á forræði skattrannsóknarstjóra þar sem mál eiga gjarnan uppruna sinn úr skatteftirliti en einnig er um rannsóknir að eigin frumkvæði að ræða.

Af þessum málum leiða oft endurákvarðanir aftur í tímann sem ríkisskattstjóri annast og einnig fer fram refsimeðferð. Nýleg dæmi á þessu sviði eru fjárveitingar til skattrannsóknarstjóra til að kaupa skattgögn frá útlöndum þar sem vísbendingar voru um að skattskil hefðu ekki verið með réttum hætti hjá innlendum skattaðilum.

Samtímaeftirlit snertir mikinn fjölda rekstraraðila á skömmum tíma og gefur því tækifæri til að leiðrétta með heildstæðum hætti skattskil margra á stuttum tíma. Hið hefðbundna skatteftirlit í formi eftiráskoðana og síðan skattrannsóknir nær til færri aðila þar sem málsmeðferð er mun tímafrekari.

Óhætt er að fullyrða að vinnuframlag hvers starfsmanns bætir skattskil og skiptir þar leiðbeiningarhlutverk RSK til skattaðila einnig miklu máli þar sem koma má í veg fyrir mistök við skattskil með réttum leiðbeiningum.

Spurt er hvort rannsóknir svari því hversu miklu fjármunir sem varið er í skatteftirlit skili í skattheimtu. En um þetta er ekki til að dreifa neinum rannsóknum sem ég get vísað til. Hins vegar er mjög oft fjallað á alþjóðavettvangi um hugtakið skattgap, þ.e. muninn milli þess sem raunverulega innheimtist af sköttum og skilar sér í ríkissjóð og því sem ætti að skila sér ef allir mundu standa skil á þeim sköttum sem þeim ber. Hefur slík útgáfa meðal annars verið á hendi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.

Hér var vísað til 80 milljarðanna sem er tala sem á uppruna sinn hjá ríkisskattstjóra. Þar erum við í raun og veru að tala um þetta skattgap. En samkvæmt okkar færustu sérfræðingum er erfitt að leggja mat á hversu mikið af þessu er unnt að upplýsa og síðan innheimta af þessum milljörðum. Þeir skiptast um það bil þannig að 49 milljarðar eru í tekjuskatti einstaklinga og fyrirtækja, sem sagt rétt um 50 milljarðar í tekjuskattinum, 11 milljarðar í tryggingagjaldi og rúmir 20 milljarðar í virðisaukaskatti.

Aukinn mannafli, hert samtímaskatteftirlit og efling skattrannsókna skilar örugglega betri skattskilum. En álagning eftir á hefur hins vegar sýnt sig að vera brothætt hvað innheimtu varðar. Því fleiri ár sem tekin eru til endurákvörðunar aftur í tímann þeim mun líklegra er að skattkrafan tapist.

Til hvaða ráða er hægt að grípa? Við höfum stutt ríkisskattstjóra mjög í þeim áherslum sem hann hefur kynnt fyrir okkur. Það sem hægt er að nefna eru aukin úrræði til að stöðva þá sem ekki vilja eða ætla sér ekki að fara að settum reglum. Lögð er áhersla á aukna samvinnu stofnana, bæði innan hvers ríkis sem og á milli landa. Við höfum nýleg dæmi um alþjóðasamninga sem ég hef undirritað um upplýsingaskipti. Aukin áhersla verði lögð á samtímaeftirlit og forvarnir en jafnframt fari fram kerfisbundin endurskoðun á skattskilum með úrtakskönnunum. Betra samspil verði á milli gildandi laga, svo sem ef atvinnurekstur er stöðvaður þá feli það sjálfkrafa í sér lokun virðisaukaskattsnúmers. Það þarf að ljúka skilgreindum minni málum á eftirlitsstigi og að heimilt verði við skatteftirlit að nota reiknilíkan á sama hátt og gildir við skattrannsóknir.

Eins og af þessari upptalningu má ráða þá eru það ýmis úrræði sem kerfið hjá okkur grípur iðulega til, þ.e. þeir sem stunda skatteftirlit og skattrannsóknir. Við höfum í mínu ráðuneyti mjög stutt við, m.a. með auknum fjárframlögum, að áfram verði haldið á þessari braut.(Forseti hringir.)

Að lokum vil ég nefna að við verðum að haga reglunum þannig að ekki sé auðvelt eða jafnvel hvati til þess að stinga undan. (Forseti hringir.) Nýlegt dæmi um það eru breytingar á endurgreiðslum vegna byggingarframkvæmda við eigið húsnæði. Breytingin sem við gerðum þar nýlega virðist ekki hafa gefið góða raun.