145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

skatteftirlit og skattrannsóknir.

389. mál
[16:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að hafið sé yfir vafa að eflt skatteftirlit og skattframkvæmd er góð fjárfesting. En hún er meira en það, hún er réttlætismál, eins og fram kom áðan gagnvart fram þeim sem greiða sitt skilvíslega, og það er auðvitað afsiðandi að horfa upp á að aðrir geri það ekki.

Ég vil leggja áherslu á það að ég tel að sameiginlegar heimsóknir aðila vinnumarkaðarins og skattsins á vinnustaði hafi gefið ákaflega góða raun. Það gefur augaleið að það er hagkvæmt að reyna að leysa í einu lagi það sem þá er hægt að taka á, þ.e. kjarasamningabundin atriði, rétt skráning, rétt skattauppgjör, virðisaukaskattsuppgjör og að ekki sé um að ræða sýndarmennsku, verktöku eða gerviverktöku til að búa út einhverja reikninga. Ég tel að reyna ætti að efla og byggja upp áfram sameiginlegar heimsóknir í stórum stíl á vinnustaði. Svo minni ég líka á þær úrbætur sem löggjöf getur skilað í þessum efnum. Þar nefni ég líka kennitöluflakk, (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra reyni nú að taka á því með viðskiptaráðherra, (Forseti hringir.) og að við komum til dæmis á reglum um þunna eiginfjármögnun. Það eru allt saman liðir í því að styrkja umgjörðina (Forseti hringir.) um rétt skattskil í landinu.