145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

skatteftirlit og skattrannsóknir.

389. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hér er snert á mjög mikilvægu máli. Það er rétt sem fram hefur komið og ég fór yfir. Þarna er um verulegar upphæðir að tefla. Skattagapið, 80 milljarðar, við vitum öll hverju það mundi skipta í samhengi ríkisfjármála. Gríðarlega háar fjárhæðir.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að það er mikilvægt að skýr lína komi frá stjórnvöldum um að hart verði tekið á skattsvikum. Þar er ég innilega sammála þingmanninum um að við þurfum að haga regluverkinu og framkvæmd skatteftirlits þannig að við ætlum ekki að líða fólki að skjóta sér undan þeirri borgaralegu skyldu sinni að greiða skatta og skyldur eins og allir aðrir og taka þar með þátt í þeim sameiginlega kostnaði sem við ætlum að bera af því að reka þetta samfélag.

Hvernig verður því best náð? Mér hafa ekki borist upplýsingar um að við glímum við mun umfangsmeiri vanda en aðrir. Að sumu leyti er vandinn hér umfangsminni en víða annars staðar. En engu að síður óþolandi að sjá hin miklu undanskot sem eru til dæmis vegna svartrar atvinnustarfsemi, eins og hér hefur aðeins verið til umræðu.

Ég ætla að nota þá hálfu mínútu sem ég hef hér til viðbótar til þess að fara aftur yfir dæmið um endurgreiðslur virðisaukaskatts á viðgerðir eða endurbætur á eigin húsnæði. Hér höfum við sagt annars vegar: Fólk á að fá skýr skilaboð um að skattsvik verði ekki liðin. Hins vegar, þegar við lækkum endurgreiðsluna úr 100% niður í 60% sjáum við talsverða breytingu á hegðun.

Þá er spurningin þessi: Þurfum við að senda skýrari skilaboð um að við ætlum ekki að líða það að þessum skattpeningum sé ekki skilað (Forseti hringir.) eða eigum við að haga reglunum þannig að fólk skili skýrslu um hvað átt hefur sér stað á viðkomandi vinnustað, þ.e. inni á heimili viðkomandi?

Skilaboðin sem við fáum frá kerfinu eru sem sagt þau að það sé minna um að virðisaukaskattsskýrslum sé skilað eftir að við lækkuðum endurgreiðsluna úr 100 niður í 60%.