145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.

426. mál
[16:46]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála og hvenær þess sé að vænta að starfshópurinn kynni fyrir mér niðurstöður sínar.

Þegar starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála var skipaður á sínum tíma voru ekki sett sérstök tímamörk á vinnu hans. Ég á hins vegar von á því að hópurinn afhendi mér fljótlega tillögur sínar þar sem formaður hópsins hefur upplýst mig um að vinnan sé á lokastigi og hann leggur ríka áherslu á að hópurinn ljúki störfum sínum innan tíðar. Við skipan hópsins taldi ég einkar mikilvægt að að vinnunni kæmu aðilar vinnumarkaðarins, en það má segja að þeir beri mikla ábyrgð á því fæðingarorlofsfyrirkomulagi sem var komið á á sínum tíma. Ég á von á að niðurstöður hópsins verði þess efnis að lagðar verði til breytingar á gildandi fæðingarorlofskerfi foreldrum til hagsbóta. Það hefur jafnframt komið skýrt fram, ekki bara frá mér heldur einnig fjármálaráðherra, um mikilvægi þess að fæðingarorlofskerfið verði endurreist og staðið myndarlega að því.

Ég hef sjálf og ríkisstjórnin hugað að því hvernig mætti hefja endurreisnina með því að hækka hið svokallaða þak í fæðingarorlofskerfinu. Ég hef verið talsmaður þess að áfram verði unnt að tryggja að markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof verði sem best náð en samkvæmt lögunum er meginmarkmið þeirra að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Til að hægt sé að ná þeim markmiðum er brýnt að stuðla að því að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi til að annast börn sín. Við höfum séð að það að lækka þakið í kerfinu, auka skerðingarnar, hefur leitt til þess að karlar hafa síður tekið fæðingarorlof og það hefur einnig sýnt sig að þeir karlar sem hafa síður tekið fæðingarorlof hafa verið tekjulægri karlarnir. Það virðist því vera að skerðingin skipti þá meira máli og nefndin hefur meðal annars verið að huga að þessu og hvað þetta segir okkur.

Ég tek jafnframt undir það sem þingmaður sagði, og það hefur verið hin áherslan, að stjórnvöld vinni áfram að því að tryggja samfellu milli fæðingarorlofs foreldra og þeirra dagvistunarúrræða sem eru fyrir hendi þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur. En þó að við höfum tekið ákveðin skref á kjörtímabilinu við að endurreisa fæðingarorlofskerfið varð ljóst að ekki var fyllileg samstaða um það hvort fyrst ætti að fara í að lengja orlofið eða horfa til þess að endurreisa og jafnvel hækka tekjuviðmiðin. Það er það sem starfshópurinn er að vinna að. Ég vænti þess að fá tillögur hans á næstunni eins og ég sagði.