145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

störf nefndar um málefni hinsegin fólks.

427. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því ef nefndin skilar nú í vor. Ég fagna því ekki að Ísland hafi færst neðar á listann frá því að ég lagði þessa tillögu fram og brýni hæstv. ráðherra til að hvetja nefndina til dáða og veita henni þá hjálp og aðstoð sem hún þarf til að ljúka verki sínu.

Eins og ég kom inn á hér áðan er þetta mál, staða hinsegin fólks á Íslandi, sem við höfum gjarnan slegið okkur á brjóst og stært okkur af að við stöndum okkur vel í. Við eigum að halda því áfram. Það er full ástæða til í ljósi pólitískra aðstæðna sem bjóða upp á samstöðu um þessar mikilvægu réttarbætur. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að forgangsraða málefnum þessarar nefndar þannig að við fáum tækifæri til að ræða þetta hér áður en til dæmis þing fer heim í vor og að við sjáum réttarbætur verða að veruleika annaðhvort í vor eða á næsta þingi.

Ég þekki það sjálf að nefndastörf af þessu tagi geta að sjálfsögðu dregist en það skiptir miklu máli að við setjum þessi mál í forgang og höldum ekki áfram að hrapa niður á listanum.