145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

störf nefndar um málefni hinsegin fólks.

427. mál
[17:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hún sagði og líka frumkvæðið sem hún hefur sýnt í þessu máli. Ég tek undir það að við viljum sem samfélag ekki sjá að við séum að fara niður þennan lista. Við viljum sjá okkur fara upp. En ég held að það sé líka mikilvæg áminning fyrir okkur að við erum í raun aldrei búin þegar kemur að því að bæta stöðu minnihlutahópa sem svo sannarlega verða fyrir mismunun og hafa þurft að berjast fyrir sínum mannréttindum.

Kannski má segja að á tímabili hafi tilfinningin verið sú í íslensku samfélagi að þetta væri komið. En það sýnir að svo sannarlega eru enn næg verkefni. Vinna þessarar nefndar er að mínu mati mjög mikilvæg. Ég hlakka til að fá niðurstöðuna því að ég veit að menn eru virkilega að vanda sig. Þarna verða tillögur sem við munum að sjálfsögðu fylgja eftir til að tryggja stöðu þessara einstaklinga.