145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem skilað var í gær veldur mér áhyggjum. Samkvæmt áliti dómstólsins kveður EES-samningurinn á um að aðildarríkjum hans beri að leyfa innflutning á fersku kjöti svo framarlega sem það hefur staðist heilbrigðiseftirlit í heimalandinu. Ekki sé heimilt að gera þá kröfu að afurðirnar verði frystar eins og íslensk stjórnvöld hafa alltaf krafist. Ég vil þó árétta það að álitið er ráðgefandi og afnemur ekki sjálfkrafa gildandi reglur á Íslandi.

Í gegnum árin hafa dýralæknar og aðrir sérfræðingar sem best þekkja til á þessu sviði varað við innflutningi á fersku kjöti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í orð Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, í Fréttablaðinu þar sem hann segir þessa niðurstöðu „sorgartíðindi fyrir þá sem bera lýð- og dýraheilsu fyrir brjósti“.

Innflutningur á hráu kjöti til Íslands er bannaður vegna varna gegn dýrasjúkdómum og voru fyrstu lög í þá átt sett 1882. Staða Íslands með tilliti til dýrasjúkdóma er einstæð í heiminum og hana ber að varðveita með öllum tiltækum ráðum. Tilgangur bannsins er margþættur og er meðal annars að tryggja sem heilnæmasta innlenda matvöru, stuðla að dýravelferð, varðveita erfðafjölbreytileika eða erfðaauðlindir, draga úr lyfjakostnaði, vernda lýðheilsu og fleira. Liður í velferð dýra er að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu með því að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Um leið er lagður grunnur að því að áfram verði framleiddar heilnæmar búfjárafurðir í landinu, lausar við afleiðingar tiltekinna sjúkdóma eða lyfjaleifar þeim tengdum. Þar fyrir utan mætti svo auðvitað ræða óæskileg umhverfisáhrif af flutningi kjöts, en það er annað mál.


Efnisorð er vísa í ræðuna