145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er mótsagnakennt að samtímis því sem við gleðjumst yfir því að hagur þjóðarbúsins vænkast nú ár af ári og við fjarlægjumst þrengingar eftirhrunstímans berast allt of oft fréttir af því að þjónustu á ýmsum sviðum sé að hraka. Skiptir þá ekki máli hvort það er stórskert póstdreifingarþjónusta á stórum svæðum í landinu eina vikuna eins og fyrir skömmu þar sem sú þjónusta er skorin niður um allt að helming sums staðar eða þá núna, að fréttir berast af því að flugumferðarstjórn á flugvellinum á Akureyri er að skerðast frá því sem verið hefur og jafnvel um áratugaskeið. Það er dapurlegt ef við getum ekki haldið uppi að minnsta kosti um það bil jafn góðri þjónustu að þessu leyti og verið hefur í gegnum þykkt og þunnt undanfarna tvo, þrjá áratugi. Þar kann að vísu fleira eða annað en peningaleysi að valda, sem sagt að einhverju leyti vandræði við að manna starfsemina með menntuðum flugumferðarstjórum með réttindi, en við hljótum að gera þá kröfu til stjórnvalda, sem fara með þessi mál, að reynt sé að leysa úr slíku með tímabundnum ráðstöfunum þangað til að mannskapur hefur verið þjálfaður upp til að fylla í skörðin. Ég veit ekki betur en að í þjónustusamningi ríkisins við Isavia séu ákvæði um það að á Akureyrarflugvelli eigi að vera flugumferðarstjórnarþjónusta allan sólarhringinn, rétt eins og á Reykjavíkurflugvelli og í Keflavík, enda eru þetta þrír langumferðarmestu flugvellir landsins.

Þar við bætist að Akureyri er miðstöð sjúkraflugs í landinu sem þarf að sjálfsögðu að hafa tryggan aðgang að svona þjónustu allan sólarhringinn árið um kring.

Ég vil nota þetta tækifæri og skora á þá sem með málin fara að reyna að leysa úr þessu ástandi og gera betur en nú eru horfur á að verði og ef til vill hefði hin ágæta umhverfis- og samgöngunefnd spanderað einum fundi af minna tilefni en þessu að fara yfir stöðuna í þessu máli.


Efnisorð er vísa í ræðuna