145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ekki er langt síðan hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra lét færa starfsmönnum fjármálaráðuneytisins orkustangir með kveðju. Hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra vildi láta menn halda að það væri leti starfsmanna fjármálaráðuneytisins um að kenna að húsnæðisfrumvörpin væru ekki komin fram, en það er fjarri sanni. Embættismenn ráðuneytisins gátu hins vegar ekki varið sig fyrir þessari lágkúrulegu árás og það vissi hæstv. ráðherra mætavel. Hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra þorði ekki að tala við hæstv. fjármálaráðherra sjálfan og réðst því að varnarlausum starfsmönnum ráðuneytisins.

Annar framsóknarmaður, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sagði í þættinum Í bítið á Bylgjunni í gær að hún teldi að embættismenn fjármálaráðuneytisins hefðu framið glæp í formi skjalafals og það hvernig meðferð skjala hér á Alþingi sem varða endurreisn bankakerfisins eftir hrun og aðgengi hv. þingmanna að þeim sé runnið undan rifjum embættismannanna.

Hæstv. forseti ætti að geta leiðrétt hv. þingmann hratt og vel enda er það þingið sem ræður meðferð skjalanna.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir þorir ekki að ráðast beint að fjármálaráðherrum síðasta kjörtímabils en sakar embættismenn um óheiðarleika með dylgjum í fjölmiðlum og vill notfæra sér þá tortryggni sem enn ríkir í samfélaginu til að þyrla upp ryki. Mér finnst framkoma þeirra beggja gagnvart starfsmönnum fjármálaráðuneytisins óásættanleg, auk þess sem hún er lítilmannleg. Það eru ráðherrar sem fara með ábyrgð og þangað á að beina spjótum en ekki að embættismönnum sem geta ekki varið sig fyrir slíkum rógi og árásum.

Mér finnst að hæstv. ráðherra og hv. þingmaður ættu að skammast sín og í öðrum lýðræðislöndum segja menn af sér fyrir minni sakir.


Efnisorð er vísa í ræðuna