145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, sagði á dögunum að gríðarlega mikilvægt væri að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og félagslega kerfisins meðal annars til þess að sporna við fjölgun öryrkja. Undir það tek ég heils hugar.

Hér á þingi greinir okkur hins vegar mjög svo á um leiðir til þess að ná því markmiði, sem ég trúi svo sannarlega að flest okkar vilji ná. Það birtist í mörgum hlutum, m.a. í kjörum fólks.

Öryrkjar og eldri borgarar kölluðu á bætt kjör fyrir áramótin þegar við vorum að ljúka vinnslu fjárlagafrumvarpsins og í dag birtast okkur tvær fréttir sem geta ekki talist til þess fallnar að gera þennan hóp sérstaklega sáttan.

Annars vegar er það frétt um að Glitnir HoldCo skipti á milli þriggja manna 170 milljónum á ársgrundvelli í laun. Þrír starfsmenn. Þetta er hreint ótrúlegt og það er ekki að ósekju að fólk velti fyrir sér hvort við séum á sömu leið og fyrir hrun.

Síðan kemur frétt um að fyrrverandi dómarar fái 26% hækkun á eftirlaun sín eða eftirlifandi makar þeirra. Þetta gera 44 milljónir á ársgrundvelli fyrir 29 manns.

Ef við veltum því fyrir okkur af hverju eftirlaunaþegar fá þessi kjör eða hækkun, dómarar, er það miðað við rökstuðninginn sem er settur fram vegna aukins álags á dómskerfið sem þeir sem sinna dómarastörfum í dag fá hækkunina. En af hverju á hún að fara til þessa sérstaka hóps eftirlaunaþega meðan allir aðrir sem fá eftirlaun sitja eftir, sem og öryrkjar? Ríkið virðist alltaf eiga fjármuni (Forseti hringir.) fyrir sérstaka hópa sem hafa það betra en þeir sem minnst hafa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna