145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er vont mál í farvatninu fyrir Akureyrarflugvöll ef svo heldur áfram sem horfir. Til marks um það hafa tveir þingmenn Norðausturkjördæmis komið hér á undan mér og vakið máls á því. Þannig er að Isavia hyggst skerða þjónustu á Akureyrarflugvelli og fara úr því að þar sé flugumferðarstjórn með flugumferðarstjóra í eingöngu upplýsingaþjónustu. Það þýðir að þjónustustig og öryggi Akureyrarflugvallar verður miklu minna en áður hefur verið.

Þrátt fyrir að fram komi í Ríkisútvarpi allra landsmanna að þetta hafi ekki nein áhrif þá er það rangt. Á Akureyrarflugvelli eru mjög sérstakar aðstæður. Það er fjallahringur allt í kringum völlinn og við þurfum á þeirri þjónustu að halda sem menntaðir flugumferðarstjórar geta veitt. Það er líka nauðsynlegt að hafa þar radar. Nú þegar fyrir liggur að þangað eigi að hefja millilandaflug, eins og fram hefur komið í þingsal, er alveg ljóst að þetta er aðgerð sem ekki getur gengið eftir.

Ég hef beðið um að stjórn Isavia og forstjóri Isavia verði kölluð fyrir fjárlaganefnd þar sem þessi mál verða rædd. Ég veit að umhverfis- og samgöngunefnd mun taka þetta mál upp. En það er hins vegar alveg ljóst að fara verður ofan í saumana á þessu. Í gildi er þjónustusamningur milli Isavia og ríkisins þar sem gert er ráð fyrir að full þjónusta sé á Akureyrarflugvelli.


Efnisorð er vísa í ræðuna