145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2015 bar hæst neyðarástandið í Úkraínu, hlutdeild Rússa í átökunum og stöðu landsnefndar þeirra hjá Evrópuráðsþinginu, flóttamannavandann á Miðjarðarhafi og baráttuna gegn hryðjuverkum.

Á árinu ályktaði Evrópuráðsþingið meðal annars um slæma stöðu flóttamanna og vegalauss fólks á átakasvæðum í suð­austurhluta Úkraínu og afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í héruðunum Donetsk og Luhansk í Úkraínu og á Krímskaga. Á fundi sínum í apríl 2014 ákvað þingið að svipta rússnesku landsdeildina atkvæðisrétti sínum ásamt rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti vegna hlutdeildar Rússlands í átökunum. Réttindi landsdeildarinnar voru tvívegis endurmetin árið 2015. Á janúarfundi þingsins var ákveðið að fullgilda kjörbréf landsdeildar Rússa en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður. Ef Rússar sýndu viðleitni til að draga innlimun Krímskaga til baka, rannsaka mannréttindabrot, leysa upp herafla sinn í Úkraínu og stilla sig um að beita sjálfstæða fjölmiðla þrýstingi, hugðist þingið skoða að veita Rússum full réttindi aftur. Á júnífundi þingsins var samþykkt að ógilda ekki kjörbréf landsdeildar Rússlands að sinni en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður. Í ályktun um málið segir að rússneska þingið og landsdeild þess hjá Evrópuráðsþinginu verði nú að hefja samræður við Evrópuráðsþingið á ný, án skilyrða, um skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu, þar á meðal hvað varðar stefnu sína gagnvart nágrannaríkjum. Í ályktuninni er undirstrikað að samþykki slíkra samræðna sé grunnregla aðildar að Evrópuráðsþinginu sem öll aðildarríki verði að fylgja. Sem fyrsta skref ætti rússneska landsdeildin að snúa aftur til vinnu eftirlitsnefndar þingsins og heimila framsögumönnum nefndarinnar gagnvart Rússlandi að sækja landið heim í tengslum við störf sín.

Rétt áður en janúarfundur Evrópuráðsins hófst í síðustu viku barst síðan bréf frá rússneska þinginu, Dúmunni, þar sem tilkynnt var að Rússar mundu ekki taka neinn þátt í starfi Evrópuráðsins á yfirstandandi ári og það er staðan í dag. Rússar eru aðilar að Evrópuráðinu og sem slíkum ber þeim að virða grunngildi þess.

Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér meðal annars fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.

Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið meðal annars gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, meðal annars með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þessara 47 þjóðþinga Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafn margir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar.

Evrópuráðsþingið er eins konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:

eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,

hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á,

vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.

Á aprílfundi sínum lýsti Evrópuráðsþingið yfir miklum áhyggjum af áframhaldandi harmleik flóttamanna og óreglulegs farandfólks á Miðjarðarhafi með gífurlegri aukningu dauðsfalla vikurnar á undan. Í ályktun um málið kallaði þingið eftir að ríki Evrópusambandsins tækju á málinu á alhliða hátt með því að styrkja leit og björgun á svæðinu, samþykkja skilvirkar sameiginlegar aðgerðir til að berjast gegn mansali og smyglurum, endurskoða Dyflinnarreglugerðina með það að leiðarljósi að deila ábyrgð og kostnaði betur með kvótum fyrir móttöku flóttafólks fyrir hvert ríki byggt á íbúafjölda þess og landsframleiðslu, fjölga löglegum leiðum til farandflutnings til Evrópu fyrir flóttafólk, auka mannúðaraðstoð og tryggja aðgengi að hæli fyrir fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar.

Á októberfundi þingsins var meðal annars rætt og ályktað um þörfina fyrir nýtt kerfi fyrir móttöku hælisleitenda sem koma til álfunnar og hins vegar þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir.

Í ályktun um síðarnefnda málefnið óskaði þingið eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins sendu hælisleitendur ekki til baka til Líbanons, Jórdaníu, Tyrklands, Grikklands, Makedóníu, Serbíu og Ungverjalands eða annarra ríkja sem bera meiri þunga af flóttamannastraumnum en önnur ríki og/eða þar sem öryggi hælisleitenda er ekki tryggt af hálfu móttökuríkjanna.

Í ályktun um hryðjuverkaárásirnar í París 7.–9. janúar 2015 kallaði Evrópuráðsþingið eftir því að aðildarríki stilltu sig um að framkvæma óskipulagt fjöldaeftirlit með borgurum, veittu löggæslustofnunum og öryggis- og leyniþjónustum nægilegt fjármagn og þjálfun til að takast á við vaxandi ógn af hryðjuverkum og tryggðu að leyniþjónustur Evrópuríkja ykju samstarf sitt sín á milli og samstarf við ríki í Miðausturlöndum og í arabaheiminum. Loks kallaði þingið eftir því að aðildarríki og nágrannaríki þeirra undirrituðu og fullgiltu sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum og fagnaði sérstaklega viðauka við sáttmálann sem sneri að hryðjuverkamönnum sem snúa aftur til síns heima.

Í ályktun á aprílþinginu um afleiðingar af aðgerðum hryðjuverkahóps sem kennir sig við íslamskt ríki, Daesh eða ISIS, lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi ástandi í Sýrlandi en á árinu 2014 létu 76 þúsund manns lífið í tengslum við átök uppreisnarhópa og stjórnarhersins þar í landi og ekki er vitað um afdrif þúsunda manna. Þá hafa 11,5 milljónir manna flúið land en þar af eru 4 milljónir flóttamenn og um 7,5 milljónir vegalaust fólk innan eigin lands. Átökin í Sýrlandi hafa leitt til þess að Sýrlendingar eru nú stærsti hópur flóttamanna sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna aðstoðar. Þingið hrósaði sérstaklega Tyrklandi, Líbanon, Írak og Egyptalandi fyrir að hafa tekið á móti um 92% af flóttamönnunum. Þingið óskaði eftir að aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins ykju fjárhagslegan stuðning sinn við stofnanir sem starfa á sviði mannúðarmála, veittu sýrlenskum flóttamönnum tímabundna vernd og vegabréfaáritanir til að þeir gætu stundað nám eða vinnu, gripu til aðgerða gegn smyglurum á Miðjarðarhafssvæðinu, lögsæktu fólk sem hefði framið stríðsglæpi og sæju til þess að konur ættu aðild að friðarferlinu í Sýrlandi.

Í upphafi árs 2015 var Anne Brasseur frá Lúxemborg endurkjörin formaður Evrópuþingsins til eins árs en hún var ein í framboði. Þá var Wojciech Sawicki endurkjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins til fimm ára með 140 atkvæðum á móti 108 atkvæðum mótframbjóðanda.

Varaformaður Íslandsdeildar, Unnur Brá Konráðsdóttir, fundaði með forseta Evrópuráðsþingsins, Anne Brasseur, 28. október í Reykjavík, ásamt Óttari Proppé og Líneik Önnu Sævarsdóttur sem ásamt Unni Brá sitja í þverpólitískri þingmannanefnd Alþingis um útlendingamál. Til umræðu á þeim fundi var fyrst og fremst mikill straumur flóttamanna til Evrópu og viðbrögð Íslands við stöðunni. Þingmenn upplýstu Anne Brasseur um vinnu þverpólitísku þingmannanefndarinnar og endurskoðun útlendingalaga á Íslandi. Anne Brasseur lýsti yfir ánægju með hvernig þingmannanefndin væri að vinna að málaflokknum, þvert á flokka og í sem mestri sátt. Í mörgum löndum væru stjórnmálaflokkar að nýta sér krefjandi aðstæður til að ýta undir hatursorðræðu og fordóma í því skyni að auka fylgi sitt. Hatursorðræða væri ógn við lýðræðið, en ekki flóttamenn.

Af öðrum málum en stöðunni í Úkraínu, flóttamannastraumi og hryðjuverkaógninni má nefna að Evrópuráðsþingið ályktaði um fjölmiðlafrelsi og lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi stöðu þegar kæmi að öryggi blaðamanna og fjölmiðlafrelsi í Evrópu og hvatti aðildarríki til að auka starf sitt á þessu sviði. Meintar árásir á fjölmiðla í átökunum í Austur-Úkraínu voru fordæmdar og kallað eftir því að stjórnvöld í Úkraínu og Rússlandi rannsaki brotin og lögsæki gerendur.

Í ályktun um fjöldaeftirlit með almenningi lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af fjöldaeftirliti Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna og samstarfsaðila þeirra í nokkrum aðildarríkjum Evrópuráðsins sem Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, upplýsti um í júní 2013. Uppljóstrunin leiddi til mikillar umræðu um þann skort sem er á viðunandi löggjöf og tæknilegri vernd í þessu sambandi. Í ályktuninni segir að eftirlitskerfin sem Snowden ljóstraði upp um stofni grundvallarmannréttindum í hættu, þar á meðal réttinum til einkalífs og tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þingið hvatti aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins til að tryggja að löggjöf þeirra leyfði aðeins söfnun og greiningu persónuupplýsinga með leyfi frá viðkomandi persónu eða að dómsúrskurður liggi fyrir byggður á rökstuddum grun um að viðkomandi hafi tekið þátt í glæpsamlegu athæfi.

Á sumarfundi Evrópuráðsþingsins var meðal annars ályktað um virkni lýðræðisstofnana í Aserbaídsjan og fordæmdi þingið versnandi vinnuaðstæður borgaralegra samtaka og verndara mannréttinda og kallaði eftir að stjórnvöld hættu kerfisbundinni áreitni í garð þeirra sem gagnrýna þau og tryggðu skilvirkt mat ríkissaksóknara á tilraunum til slíks. Þá kallaði þingið eftir að stjórnvöld í Aserbaídsjan framfylgdu að fullu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, tryggðu aðskilnað valds, styrktu eftirlit þjóðþingsins með framkvæmdarvaldinu, tryggðu sjálfstæði dómstóla og hvettu til fjölhyggju, frjálsra kosningaherferða og fjölmiðlafrelsis.

Í ályktun um afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í Úkraínu lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af vaxandi fjölda týndra einstaklinga vegna átakanna í héruðunum Donetsk og Luhansk í Úkraínu og á Krímskaga. Ekki sé einungis um að ræða hermenn heldur einnig almenna borgara, þar á meðal sjálfboðaliða sem voru að hjálpa fórnarlömbum átakanna. Lagt var til að veitt yrði sérstök aðstoð til fjölskyldna týndra einstaklinga. Það væri á ábyrgð rússneskra og úkraínskra stjórnvalda og þeirra aðskilnaðarhópa sem hafa yfirráð yfir héruðunum Donetsk og Luhansk að hjálpa fjölskyldum að finna ástvini sína án frekari tafar.

Í utandagskrárumræðu um flóttamenn á Miðjarðarhafi var kallað eftir að þingmenn hvettu evrópska leiðtoga til að deila ábyrgðinni gagnvart flóttamönnum. Þeir ættu að sýna meiri samheldni þegar kæmi að því að taka á móti flóttamönnum í heimalöndum sínum og styðja þau ríki sem tækju mestu ábyrgðina í því sambandi. Aukin samvinna aðildarríkja Evrópuráðsþingsins væri raunhæf lausn á vandamálinu. Að deila ábyrgðinni væri ekki einungis lagaleg skylda heldur einnig mannúðleg.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarp á haustþinginu og fullvissaði hann Evrópu um að hún hefði stuðning Sameinuðu þjóðanna þegar kæmi að baráttunni gegn ofbeldishneigðri öfgahyggju og aukinni andúð gegn gyðingum og múslimum og annarri mismunun. Þá lagði hann áherslu á réttindi flóttamanna, hælisleitenda og farandverkamanna og lagði í því sambandi til að settar yrðu upp lagalegar leiðir fyrir búferlaflutninga og sameiningu fjölskyldna.

Á haustfundi Evrópuráðsþingsins sat Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri ráðsins, fyrir svörum í fyrirspurnatíma á fyrsta degi þingfunda. Ég spurði Jagland hvort viðræður ættu sér stað milli Evrópuráðsins og Rússlands um stöðu landsins innan ráðsins, og vísaði til funda forseta Bandaríkjanna og Rússlands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um aukna hernaðarlega íhlutun Rússa í Sýrlandi og neyðarástandið í Úkraínu. Jagland svaraði að ekki væru einungis í gangi samræður milli ráðsins og Rússlands heldur hefði ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkt fjölda ákvarðana um ólöglega innlimun Rússa á Krímskaga og hlutdeild þeirra í málefnum Austur-Úkraínu. Samhliða því styddi Evrópuráðið viðleitni Úkraínumanna við að byggja upp traust ríki þar sem spilling þrifist ekki. Ástandið í Sýrlandi væri hins vegar ekki til umræðu þar sem Evrópuráðið hefði ekki umboð til að taka á því. Það væri á ábyrgð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að tryggja frið og öryggi í heiminum og hvað Sýrland varðaði hefði öryggisráðið brugðist.

Í umræðum um flóttamannavandann í Evrópu var annars vegar rætt og ályktað um þörfina fyrir nýtt kerfi fyrir móttöku hælisleitenda sem koma til álfunnar og hins vegar þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir. Þingið mælti með því að Evrópusambandið og aðildarríki þess mótuðu skuldbindandi reglur um móttöku og flutning hælisleitenda milli aðildarríkja í viðleitni sambandsins til að bæta framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar og annarra reglna um móttöku flóttamanna. Þá mælti þingið með því að búin yrði til sérstök lagaleg staða „evrópskra flóttamanna“ sem gætu á grunni þeirrar stöðu flutt búferlum milli aðildarríkja og notið sömu réttinda í þeim öllum, eða að öðrum kosti að flóttamenn sem eru undir alþjóðlegri vernd fái langtímadvalarleyfi að tveimur árum liðnum. Hvað varðar Dyflinnarreglugerðina kallaði þingið eftir að Evrópusambandið og aðildarríki þess hæfu án tafar heildræna endurskoðun á henni. Í ályktun um þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir mælti þingið með því að Evrópusambandið tryggði samræmi í stefnu sinni gagnvart flóttamönnum, virti mannréttindi og réttarríkið og forðaðist að einblína á landamæraeftirlit og öryggismál. Þingið óskaði jafnframt eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins sendu hælisleitendur ekki til baka til Líbanons, Jórdaníu, Tyrklands, Grikklands, Makedóníu, Serbíu eða Ungverjalands eða annarra ríkja sem bera meiri þunga af flóttamannastraumnum en önnur ríki og/eða þar sem öryggi hælisleitenda er ekki tryggt af hálfu móttökuríkjanna. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins hvatti þingið nefndina til að tryggja mannréttindi flóttamanna í samstarfi sínu við þriðju ríki og styðja viðkomandi ríki í viðleitni þeirra við að auka vernd flóttamanna og við að móta heildstæða stefnu fyrir aðlögun þeirra.

Virðulegur forseti. Loks má geta þess að stærsta nefnd Evrópuráðsþingsins, Committee on Political Affairs and Democracy, hefur ákveðið að funda í Reykjavík í september næstkomandi og er það mikið fagnaðarefni hvað bæði nefndin og Evrópuráðið hafa sýnt landinu mikinn áhuga. Þá ber að þakka Alþingi fyrir að hafa boðið Evrópuráðsþinginu að halda fundinn hérlendis en á honum gefst einstakt tækifæri til að koma á framfæri málefnum og sjónarmiðum sem sérstaklega tengjast Íslandi.