145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar ræðu. Það er gott að finna að maður er ekki einn um að vilja gera eitthvað til þess að breyta þessu verklagi hérna.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort maður ætti ekki hreinlega að reyna að stefna að því að koma þingmönnum í alþjóðastarfi saman á fund sem allra fyrst og að við mundum þá jafnvel leggja fram tillögu til yfirstjórnar Alþingis um hvað okkur þætti skynsamlegast að gera. (Gripið fram í.)

Ég hef einmitt hugsað að það væri sniðugt að nota vestnorræna módelið og nýta sér jafnframt að maður getur kallað eftir skýrslum um hvernig staðan er og unnið þaðan upp ályktanir til að ná að vera í samræmi við það sem maður er að samþykkja.

En það er eitt sem ég hef hoggið eftir og það er að stundum er mjög erfitt að fá þessar ályktanir þýddar yfir á íslensku. Ég hef þurft að berjast fyrir því að fá mína eigin ályktun þýdda, sem ég vann að hjá Alþjóðaþingmannasambandinu.

Mig langar að spyrja þingmanninn — hv. þingmaður hefur verið aðeins lengur en ég á þingi — hvort hún telji að það skipti máli að fá þetta yfir á íslensku og hvort ekki væri sniðugt að reyna að hafa sérdeild sem sér um það, í skjaladeildinni til dæmis.