145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:19]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum Birgittu Jónsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur fyrir framlag þeirra. Ég gæti ekki verið meira sammála því sem þær hafa sagt um þetta mál, ég verð að segja alveg eins og er. Ég hef oft hugsað sjálfur um alla þessa miklu vinnu sem hefur farið í ályktanir hjá Evrópuráðinu og við erum ekki einir um að hafa áhyggjur af þessu. Ég heyri þetta hjá þingmönnum annarra landa líka, flestra landa.

Forseti Evrópuráðsins hefur talað um þetta vandamál að þingmenn séu ekki að fara með ályktanir ráðsins til sinna landa, koma þessu í framkvæmd. Mikið af þessu fer upp í ráðuneyti, en þetta skilar sér ekkert lengra, þetta endar bara ofan í skúffu þar. Að vísu er það þannig í Evrópu, til dæmis í Evrópuráðinu, að ályktanir á hverju ári eru ábyggilega 100 til 150 og góður hluti þessara ályktana á kannski ekki beint við um okkur, þetta eru ályktanir sem er verið að beina að ákveðnum löndum þar sem verið er að krefjast úrbóta og þær eru yfirleitt teknar mjög alvarlega í þeim löndum. Svo er annar hluti ályktana sem á beint erindi við okkur. Það eru til dæmis ályktanir sem tengjast mikið málaflokkum sem Píratar hafa áhuga á o.s.frv., og mannréttindamálum almennt. Þetta eru mál sem við verðum að fara að taka upp hjá okkur.

Ég er ekki með neina beina spurningu, en ég fagna þessari umræðu. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir að vekja máls á þessu.