145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það sem ég kom ekki að í ræðu minni áðan þegar ég var að ræða hvernig ætti að fara með svona samþykktir sem við komum kannski heim með í farteskinu var eftirfarandi: Ég tel að fyrir utan að þetta eigi að koma til kasta utanríkismálanefndar eigi eftir atvikum að leggja fram hugsanlega einhvers konar álit nefndarinnar sem formaður nefndar mundi flytja og eftir atvikum einn frá minni hlutanum ef það er ágreiningur um slíkt mál, ef þau eru talin vera þannig vaxin að mikilvægi að sjónarmiðin eigi að komast til þingsins.

Ég hef líka hugsað það oft að kannski væri ráð að veita slíkum málum einhvern tiltekinn stuttan tíma til umræðna. Ég fer ekki einu sinni fram á að það verði frjálsar umræður en kannski að tveir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu gætu komið að skoðunum sínum í tveggja mínútna ræðum um slíkt. Ef hins vegar væri um að ræða stórmál, við skulum segja t.d. það mál sem hér hefur borið hæst, Rússland og Úkraína, þá tel ég að ef meiri hluti utanríkismálanefndar telur að slíkt mál eigi erindi inn í þingið til almennrar umræðu eigi að veita tíma til slíks. Ég held að það væri mjög heppilegt og hefði getað hjálpað til við ýmislegt sem mér hefur þótt vandræðalegt við þessa umræðu sem hefur sprottið þar um. Þetta er um það.

Hvað varðar hina raunverulegu fyrri spurningu hv. þingmanns er það þannig að þetta er hið sama og þingmenn mjög margra þinga kvarta undan. Það er ekki farvegur í þinginu. Ástæðan er sú að þingin eru gömul, sitja á gömlum merg og eru skorðuð í gömlum farvegi en alþjóðamálin eru orðin svo miklu umfangsmeiri og snarari þáttur af hagsmunum þjóðanna. Þetta hefur einhvern veginn ekki aðlagað sig hvort að öðru. En í mörgum þingum eru þó (Forseti hringir.) skipaðar undirnefndir undir utanríkismálanefndum þar sem sérstakir tilteknir málaflokkar eru teknir fyrir, sums staðar til dæmis norðurslóðamál.