145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[15:52]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mun mæla fyrir þessari skýrslu vegna fjarveru formanns Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins. Ég verð að segja það fyrst að Alþjóðaþingmannasambandið er einhver stórkostlegasti vettvangur sem ég hef tækifæri til að starfa á. Þar koma saman 166 lönd ásamt mjög mörgum öðrum fulltrúum, til dæmis frá mannréttindasamtökum og víðar að. Þar koma þingmenn saman tvisvar á ári og fara mjög ítarlega í mikilvæg málefni. Það er alveg einstakt að fá tækifæri til að hitta þingmenn frá löndum sem maður hafði nánast aldrei heyrt um og geta átt með þeim samstarf um hluti sem manni hefði aldrei dottið í hug að maður gæti átt sambærileg sjónarhorn með, það er ótrúlega dýrmætt að fá tækifæri til að dýpka þekkingu sína á þessum stóra heimi okkar.

Ég ætla aðeins að fara yfir störf nefndarinnar á árinu sem var að líða.

Af þeim fjölmörgu og margþættu málum, sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, á árinu 2015, eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins, sem eru að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.

Fyrst ber að nefna málefni innflytjenda og flóttamanna sem voru mjög til umræðu á haustþingi IPU. Lögð var áhersla á mikilvægi siðferðislegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn. Meðal annars var lögð áhersla á stuðning við flóttamenn frá Sýrlandi og nágrannaríkin sem taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna frá landinu. Jafnframt var ályktað um hlutverk IPU, þjóðþinga, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn vegna stríðsástands, innanlandsátaka og félagslegra aðstæðna, samkvæmt meginreglum alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og siðareglna. Haft var að markmiði að virkja þjóðþing og alþjóðastofnanir til að tryggja vernd og stuðning við flóttamenn í heiminum.

Þá var rætt og ályktað um lýðræði í stafrænum heimi og ógnir gegn friðhelgi einkalífs. Birgitta Jónsdóttir var annar tveggja höfunda ályktunarinnar, fyrst íslenskra þingmanna til að fá ályktun samþykkta hjá IPU. Í ályktuninni, sem var samþykkt einróma á haustþinginu, var meðal annars lögð áhersla á að öll löggjöf á sviði eftirlits, friðhelgi einkalífs og persónulegra gagna verði að byggjast á meginreglum lögmætis, gagnsæis, meðalhófs, nauðsynjar og réttarríkis og voru þjóðþing hvött til að gaumgæfa landslög og verklag ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana sem starfa í umboði þeirra til að tryggja að þær virði alþjóðalög og mannréttindi, einkum varðandi rétt til friðhelgi einkalífs, og skorað var á þjóðþing að tryggja, með þessari endurskoðun, að opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki verði ekki neydd til að vinna með stjórnvöldum að aðgerðum sem skerða mannréttindi viðskiptavina þeirra, með þeim undanþágum sem kveðið er á um í alþjóðlegum mannréttindalögum.

Einnig fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að berjast gegn hryðjuverkum sem eru framin af hryðjuverkasamtökum eins og Daesh/ISIS og Boko Haram gegn almennum borgurum, sérstaklega konum og stúlkum. Í umræðum um neyðarályktunina var lögð áhersla á að ekki beri að tengja hryðjuverkastarfsemi við trúarbrögð, þjóðerni eða þjóðfélagshópa. Þá beri að líta svo á að hvers kyns hryðjuverk séu glæpir og að þau séu alltaf óréttlætanleg, sama hver ástæðan er og sama hver fremur þau.

Á vorþingi IPU var fjallað um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem fulltrúar Alþingis lögðu meðal annars áherslu á menntun og jafnrétti kynjanna sem forsendu farsællar innleiðingar og framkvæmdar markmiðanna. Þeir sögðu að leggja þyrfti ríka áherslu á hvernig tryggja megi framgang nýju markmiðanna með ábyrgð stjórnvalda að leiðarljósi og áherslu á hinn mannlega þátt þeirra. Af öðrum stórum málum, sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2015, má nefna vígbúnað á internetinu, hvernig tryggja megi vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns, alþjóðalög í tengslum við fullveldi ríkja og íhlutunarleysi um innanlandsmál.

Þá ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2015 má nefna tveggja daga fund í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem var haldin í París og svæðisbundna málstofu um ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir þjóðþing í Austur-Evrópu. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í mismunandi málaflokkum. Á árinu 2015 voru meðal annars gefnar út skýrslur um hjálparstarf og meðferðir við HIV-veirunni.

Mig langaði kannski aðeins, því að það er alls ekki nægilegur tími til að fara yfir alla skýrsluna, þó að hún sé nú ekki mjög löng, að fara yfir 132. þing IPU sem haldið var í Hanoi frá 28. mars til 1. apríl.

Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður, Ásmundur Einar Daðason varaformaður og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.

Helstu mál á dagskrá voru hvernig stuðla mætti að nýju kerfi varðandi stjórnun vatns í heiminum, alþjóðalög í tengslum við fullveldi ríkja, íhlutunarleysi um innanlandsmál og mannréttindi og friðhelgi einkalífs á 21. öldinni og lýðræði framtíðar. Þá fór fram almenn umræða um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, auk þess sem haldinn var fundur þingkvenna. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um hlutverk þjóðþinga við að berjast gegn hryðjuverkum sem eru framin af hryðjuverkasamtökum eins og ISIS og Boko Haram gegn almennum borgurum.

Ég var svo lánsöm, út af því inngripi sem bandarísk yfirvöld höfðu gagnvart friðhelgi einkalífs míns í tengslum við sjálfboðastarf sem ég vann fyrir samtökin Wikileaks árið 2009 og snemma árs 2010, að mitt mál fékk sérstaka umræðu og umfjöllun hjá mannréttindanefnd IPU. Þessi nefnd er mjög merkileg. Ég hefði sennilega aldrei komist að því að hún væri til nema einmitt út af því að mitt mál var tekið fyrir þar. Þetta er eina viðurkennda alþjóðanefndin sem aðstoðar þingmenn í nauð. Það er nefnilega þannig að í mörgum löndum þá hreinlega hverfa þingmenn. Þeir eru hamlaðir í að sinna störfum sínum eða eru fangelsaðir og jafnvel pyndaðir. Ég verð að segja að eftir því sem ég hef kynnst Alþjóðaþingmannasambandinu IPU meira því merkilegri finnst mér þessi vettvangur. Hann hefur verið til frá 1889 og sífellt vaxið og þarna er verið að ná inn ríkjum sem búa nánast við ekki neitt lýðræði; þar geta menn rætt beint við fulltrúa frá þeim ríkjum og jafnvel reynt að inspírera ungu kynslóðina sem þarna kemur, því að búið er að stofna sérstaka deild ungra þingmanna hjá Alþjóðaþingmannasambandinu, sem hittist yfirleitt áður en stóra þingið hefst — þar er ótrúlega mikil gerjun í gangi og mikið rætt um leiðir til að auka til dæmis beint lýðræði. Það má segja að virkustu löndin þar séu mörg ríki frá Afríku sem maður hefur ekki haft tækifæri til að kynna sér nægilega vel.

Það vekur hjá manni miklar vonir þegar maður fær tækifæri til að fjalla um stóra hluti eins og til dæmis réttindi til aðgengis að vatni, stóra hluti er lúta beinlínis að grundvallarstoðum lýðræðis og hvort það sé rétti farvegurinn fyrir mörg af þessum ríkjum. Það sem hefur valdið áhyggjum er að þarna hefur þróast ákveðin geópólitík sem mér finnst ekki gott og ég mun leggja fram einhvers konar tillögur um það hvernig mætti hrista það aðeins upp.

Ég fékk það tækifæri að skrifa ályktun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið, sem var byggð á áhyggjum mínum sem og mjög margra annarra eftir að hafa hlustað á fyrsta viðtalið við Edward Snowden, þegar hann var í Hong Kong. Þar lagði hann til þrjár leiðir til að tryggja vernd á friðhelgi einkalífs, ein væri að stuðla að betri lagasetningu heima fyrir, önnur að tryggja lagabreytingar í alþjóðasamþykktum og samstarfi og þriðja leiðin væri dulkóðun. Það var mér mikið fagnaðarefni, þegar ég lagði fram tillögu og ósk um að fá að gera ályktun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið, um lýðræði í stafrænum heimi og ógn gegn friðhelgi einkalífs, að IPU varð við þeirri ósk. Það var ekki endilega auðvelt. Það er yfirleitt bara tekin fyrir ein ályktun á hverju þingi og við erum í samkeppni við þúsund manns, en það tókst.

Það sem mér fannst mikilvægt við þessa ályktun og vinnu við hana var að það komu 113 breytingartillögur og á einhvern hátt tókst að fara í gegnum þetta með gríðarlega stífri og góðri fundarstjórn frá þingmanni sem kom inn í þessa nefndarvinnu hjá þriðju nefndinni, sem fjallaði um lýðræði og mannréttindi. Fundarstjórnin tókst svo vel hjá þessari þingkonu frá Nýja-Sjálandi að okkur tókst að fara í gegnum allar þessar breytingartillögur á þinginu í Genf í haust og fá málið í gegn, það var samþykkt einróma sem er mjög ánægjulegt. Það sem var svo mikilvægt við þessa vinnu var að á einhvern hátt tókst að virkja öll þessi lönd. Þó að Rússland, Kína og Indland væru með mjög skaðlegar breytingartillögur tókst að hafna þeim og taka bestu tillögurnar inn. Þetta var alveg ótrúlegur fundur sem tók marga klukkutíma, þar sem við vorum að fara yfir þessar ályktanir.

Það er gríðarlega dýrmætt að hafa fengið tækifæri til að vinna með þingmönnunum hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur sérstaklega og hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og finna fyrir því trausti sem ég fann frá þeim gagnvart þeim störfum sem ég fékk tækifæri til að vinna fyrir hönd Íslands hjá Alþjóðaþingmannasambandinu. Þegar maður er í starfi þar sem maður fer út úr þessu dægurþrasi, sem oft vill brenna við hér í þingsal, og fær tækifæri til að vinna út frá málefnunum þá gerast hlutir sem erfitt er að miðla áfram hingað. Okkur tekst að finna leiðir til að setja á oddinn sameiginlega sýn á það hvert við erum að fara sem þjóð. Það finnst mér mjög dýrmætt. Og sú sýn sem við höfum lagt mikla áherslu á, og þá sér í lagi hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, er einmitt um réttinn til þess að sækja nám, og sérstaklega fyrir stúlkur. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur vakið mikla athygli hjá kollegum okkar, öðrum þingmönnum, í þessum víðfeðma hópi þingmanna sem sækja Alþjóðaþingmannasambandið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum þeirri sérstöðu. En það vill nú svo til að við erum líka farin að vekja athygli á þeirri sérstöðu og sérhæfingu sem íslenskir þingmenn hafa lagt áherslu á, er lýtur að sjálfsögðu að norðurslóðum og öðrum leiðum í orkugjöfum, en líka að löggjöf fyrir 21. öldina.

Það segir margt þegar maður hefur verið að fylgjast með þessum störfum, bæði hjá Alþjóðaþingmannasambandinu og víðar þar sem þingmenn frá Íslandi hafa verið að störfum, hversu vel okkur hefur tekist að fá að axla ábyrgð í þessu starfi með því til dæmis að hafa frumkvæði að því að gera ályktanir sem og margt annað. Þannig að mér finnst það mjög ánægjulegt. Það sýnir einmitt að maður er ekki svona, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom inn á áðan, í einhvers konar alþjóðastarfstúrisma. Enda er það alveg ljóst að þegar maður leggur það á sig að fara héðan og taka þátt í svona starfi fær maður mjög djúpstæða þekkingu á mörgum málaflokkum, þekkingu sem erfitt er að ná sér í hér heima. Maður fær mikla og góða innsýn í dýnamíkina sem er í gangi í alþjóðastarfinu og maður er ekki að fara þarna nema maður eigi erindi. Það hef ég nánast undantekningarlaust séð hjá þeim þingmönnum sem ég hef starfað með í alþjóðastarfi, og hef ég tekið þátt í tveimur alþjóðanefndum frá því að ég kom á þingið.

Mig langaði undir lok þessarar ræðu að nefna að Alþjóðaþingmannasambandið stóð fyrir sameiginlegum fundi IPU og franska þingsins í París 5.–6. desember í tengslum við loftslagsráðstefnuna þar. Það sem gerðist þar var líka mjög mikilvægt út af því að yfirleitt, þegar loftslagsráðstefna er haldin, er ekki mikið samráð við þingin; það fara ekki margir þingmenn á þessa ráðstefnu. Þar sem margir þingmenn voru að fara á fundinn hjá IPU og franska þinginu þá var einhvern veginn miklu betra aðgengi, bæði áður en við fórum á ráðstefnuna og á ráðstefnunni sjálfri, en hefur verið áður. Það tel ég vera mjög mikilvægt. Ég held að það sé mikilvægt að alþjóðanefndir af þessu tagi reyni að taka svona fundi samhliða stórum alþjóðaviðburðum þannig að þingmenn séu betur meðvitaðir um hvað verið er að gera í nafni þjóða þeirra.

Þetta var stórkostlega upplýsandi fundur í franska þinginu og við Ragnheiður Ríkharðsdóttir tókum báðar til máls. Ég leyfði mér að skammast aðeins í frönsku ríkisstjórninni fyrir að hafa annars vegar talað um mikilvægi þess að samráð væri haft við grasrót landanna og hlustað á almenning og hins vegar verið að handtaka og setja í stofufangelsi gríðarlega stóran hóp af fólki sem ómögulegt var að komast að af hverju var í stofufangelsi. Þá er þetta fólk sem mögulega gæti staðið fyrir mótmælum og það kom ekki í ljós fyrr en fólk losnaði úr þessari prísund af hverju það var þar — og í sumum tilfellum var engin sérstök ástæða, fólk þurfti ekki einu sinni að fara fyrir dómara. Mér finnst þetta mjög alvarleg þróun.

Ég hefði viljað geta farið miklu ítarlegar yfir skýrsluna og lesið hana alla, en ég vil hvetja þá sem hafa tök á að kynna sér störf alþjóðanefnda Alþingis, eða þeirra alþjóðanefnda sem Alþingi tekur þátt í, til þess, því að þar er að finna ótrúlegan hafsjó af fróðleik og það er nauðsynlegt að halda áfram á þeirri vegferð að koma þessu dýpra inn í þingstörfin.

Ég vil að lokum þakka tveimur aðilum sem unnu mjög mikla og óeigingjarna vinnu fyrir nefndina. Fyrst er að nefna ritara nefndarinnar, Örnu Bang, og starfsmann þingflokks Pírata, Aðalheiði Ámundadóttur, sem kom með til að hjálpa mér við vinnuna í tengslum við ályktunina í Genf á haustdögum.