145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[16:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála því að það er á ábyrgð okkar þingmanna að mál rykfalli ekki, en þegar einstaka þingmenn reyna vegna áhuga síns á málum að taka þau upp eða vegna þess að þeir sjá knýjandi pólitíska þörf á því að taka þau upp þá er alltaf voðalega þungt í vöfum þegar öll umgjörðin og formið og kerfið sem við vinnum eftir er því í rauninni í óhag. Þó svo að ég vilji ekki gera lítið úr ábyrgð okkar þingmanna held ég að mjög mikilvægt sé að við skoðum þetta á kerfislægum grunni og tökum á því þannig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í þessu seinna andsvari, af því að ég veit að hún hefur tekið þátt í ýmsu alþjóðastarfi á vegum Alþingis Íslendinga: Þekkir hún eitthvað hvernig þessu er háttað í öðrum löndum? Það má lesa út úr þessu orðalagi að því sé ábótavant, eða það sem mér finnst, að þessu sé ábótavant á fleiri stöðum en á Íslandi. Þekkir hv. þingmaður einhvers konar fyrirmyndir að því að þau mál sem rædd eru á vettvangi til að mynda Alþjóðaþingmannasambandsins eða á vettvangi annars alþjóðastarfs fari þar inn í einhvers konar farveg þar sem málin eru tekin upp og til afgreiðslu á þjóðþingum tiltekinna ríkja?