145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Ég þakka fyrir spurninguna. Ég hef einmitt kallað eftir þessum upplýsingum og komist að því að þroskaðri lýðræði standa sig verst á meðan til dæmis Suður-Afríka er með ákveðinn farveg fyrir þetta sem er í anda þess sem við ræddum fyrr í dag í 2. umr., hvernig við getum tryggt að alþjóðanefndirnar og þær ályktanir sem fara fram í nafni okkar endi á þinginu í umræðu og í ályktunum. Ég er akkúrat að fara í slíkan leiðangur núna í mars á næsta fundi Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem þetta verður sérstaklega rætt og er búin að bóka fund með forseta Alþjóðaþingmannasambandsins til þess að ræða meðal annars þessi mál við hann. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr því.

Mig langar að skora á þá þingmenn sem hafa ekki haft tækifæri til þess að lesa ályktunina um stöðu lýðræðis í stafrænum heimi og ógnun við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi. Ég lét hana fylgja með beiðni um skýrslu til innanríkisráðherra um þetta mál og það er mjög mikið af ábendingum þar sem við getum nú þegar byrjað að skoða hvort við getum ekki tekið til okkar. Mig langar líka að hvetja þingmenn í alþjóðastarfi til að koma starfi sínu á framfæri á Alþingi á einhvern hátt. Það er alveg ljóst að þessar umræður sem við eigum hér í dag þurfa að eiga sér stað með fleiri þingmönnum og þær þurfa að eiga sér stað oftar en einu sinni á ári, t.d. umræðan um IPU. Í fyrra var engin umræða, henni var frestað um heilt ár.