145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Vestnorræna ráðið 2015.

466. mál
[17:05]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, formanni Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, fyrir skýrsluna. Það er svo sem litlu við hana að bæta öðru en að ítreka og hnykkja aðeins á mikilvægi þessa samstarfs við næstu nágranna í austri og vestri. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fá að starfa í ráðinu og maður skynjar það alltaf betur og betur hvað þessar þjóðir eiga margt sameiginlegt, hvað það er margt sem tengir þær, mörg vandamálin eru svipuð í þeim löndum og því mikilvægt að auka samstarf þessara þjóða.

Eins og fram hefur komið var herra forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdur heiðursverðlaunum ráðsins í Færeyjum á 30 ára afmæli ráðsins og vil ég ítreka þakklæti mitt og okkar til hans fyrir hvað hann hefur átt stóran þátt í því að koma þessu ráði að í umræðunni um norðurhöfin. Þetta Arctic Circle dæmi magnast alveg ár frá ári og miklar ráðstefnur eru í tengslum við það og hafa greinilega talsverð áhrif, og það er ekki síst honum að þakka að við erum búin að skrifa undir samning við þau samtök um að fá að setjast að borði hjá þeim þannig að rödd frumbyggjanna getum við sagt á þeim svæðum heyrist meira á því sviði.

Margt hefur svo sem áunnist í þessu samstarfi. Vaxandi samstarf er um heilbrigðismál og mennta- og menningarmál. Við erum að fikra okkur áfram veginn og sýnilegur árangur er klárlega á þeim sviðum.

Um menninguna, þá var fundur haldinn um síðustu helgi í Grindavík þar sem prófað var að halda menningarkvöld þar sem bæjarbúum var boðið upp á að hitta það fólk og fá kynningu á menningu og listum. Það var sungið og dansað og sýndar heimildarmyndir frá Grænlandi og Færeyjum. Þetta er kjörinn vettvangur til að þær þjóðir og fólkið kynnist betur, við lærum aðeins betur inn á menningu þess og líf, þó ekki sé annað en að virkja persónuleg tengsl og annað á milli þessara þjóða hjálpar það til við að skilja hvert annað.

Ég ætla ekki að lengja þetta meira en ítreka hvað það er mikilvægt að við höldum góðu sambandi við þær þjóðir þótt við séum ekki alltaf sammála og deilum um einhverja hluti, en þá er þetta alla vega vettvangur til að tengjast þeim og sem hjálpar okkur að leysa þau vandamál sem upp koma.