145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hefur lagt fram þrjár tillögur til þingsályktunar og verður nú mælt fyrir þeim hér. Við byrjum á þeirri er varðar vestnorrænan fríverslunarsamning og vestnorrænt viðskiptaráð.

Á þemaráðstefnu ráðsins í Aasiaat á Grænlandi fyrir ári ræddum við þessi málefni. Við vorum með það markmið með þessari ráðstefnu að greina þá sameiginlegu hagsmuni sem Ísland, Grænland og Færeyjar hafa af því að byggja sameiginlega vestnorræna norðurslóðastefnu. Ein af þeim hugmyndum og tillögum sem skapaðist upp úr þeirri vinnu er sú sem hér er rædd, sem felur það í sér að ríkisstjórnir landanna þriggja skipi vinnuhóp sérfræðinga sem fær það verkefni að greina sameiginlegan ávinning sem yrði að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

Í fyrsta lagi tökum við það fram í tillögunni að að lágmarki verði það greint hverjir eru kostir og gallar þess að gera slíkan vestnorrænan fríverslunarsamning eða að öðrum kosti tvíhliða samninga milli Grænlands og Íslands annars vegar, og Grænlands og Færeyja hins vegar. Í öðru lagi á hvaða sviðum löndin hefðu gagnkvæman hag af aukinni fríverslun og á hvaða sviðum aukin fríverslun væri ekki ákjósanleg. Í þriðja lagi að greina kosti og galla þess að mynda vestnorrænt fríverslunarsvæði sem fæli í sér frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Í fjórða lagi að greina kosti og galla þess að stofna vestnorrænt viðskiptaráð, meðal annars með því að kanna tækifæri og hindranir fyrir frjálsum og opnum viðskiptum á milli landanna.

Í Vestnorræna ráðinu hafa þessi mál verið mikið til umræðu á undanförnum árum. Ísland og Færeyjar hafa gert með sér fríverslunarsamning, Hoyvíkursamninginn, og í mörg ár hefur verið rætt um það við Grænlendinga að gerast aðilar að þeim samningi. Því hefur nú verið skýrt svarað af hálfu Grænlands að ekki er áhugi á því að gerast aðili að þeim samningi en frekar áhugi á því að fara þessa leið.

Ég tel mikilvægt að þessi tillaga fái góða umræðu í utanríkismálanefnd. Ég vonast svo sannarlega til þess að hún verði samþykkt þannig að ríkisstjórnir landanna þriggja skipi þennan vinnuhóp sérfræðinga til að þoka málum áfram. Nú liggur ljóst fyrir hvaða farveg er best að setja málið í. Nú er búið að slá út af borðinu þennan möguleika varðandi útvíkkun Hoyvíkursamningsins og þá er ekkert annað að gera en að byrja á næsta verkefni, sem er að fara í þessa greiningu þannig að við getum tekið ákvarðanir um næstu skref.

Ég vonast til þess að þessi þingsályktunartillaga fái jákvæða umfjöllun í utanríkismálanefnd.