145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

langtímastefna fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

76. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum sem á rætur sínar í vinnu sem Vestnorræna ráðið setti á fót í kjölfar ársfundar ráðsins í Vestmannaeyjum árið 2014. Þá var skipuð sameiginleg nefnd forsætisnefndar ráðsins og eins þingmanns til viðbótar frá hverju landi. Nefndin hittist tvisvar sinnum til þess að greina þau svið þar sem löndin þrjú eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og gætu aukið samstarf sitt. Við höfum gefið út skýrslu um þessa vinnu sem var samþykkt á ársfundi ráðsins í Runavík í ágúst 2015 og hugmyndin að baki skýrslunni var að sú vinna gæti orðið grundvöllur að sameiginlegri vestnorrænni norðurslóðastefnu milli landanna þriggja.

Eitt af þeim atriðum sem bar hæst í þeirri skýrslu er einmitt það efni sem hér um ræðir, þ.e. samgöngur og innviðir á Vestur-Norðurlöndum. Vegna landfræðilegrar legu svæðisins búum við nú það vel að við sjáum fram á mjög mikil tækifæri og það eru mikil tækifæri í því fólgin að hafa nánara samstarf milli landanna þriggja. Flutningar skipta löndin þrjú miklu máli, einnig efnahagslega, og við teljum ljóst að með því að vinna betur saman geti öll löndin þrjú hagnast og sameiginlegur ávinningur sé að því, ekki bara á sviði innviða og samgangna, heldur almennt á sviði norðurslóða. En við ætlum að byrja á byrjuninni.

Nú eru aðrar þjóðir í auknum mæli að taka upp samstarf á sviði norðurslóðamála. Við teljum að við, Vestur-Norðurlöndin, höfum alla burði til þess að vera sterkari eining ef við vinnum betur saman. Efnislega felur þingsályktunartillagan í sér að ríkisstjórn Íslands ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands vinni greiningu með það að markmiði að kanna möguleika þess að móta sameiginlega langtímastefnu á sviði samgangna og innviða á Vestur-Norðurlöndum. Tilgangurinn með því er að svæðið sem heild standi betur að vígi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni á norðurslóðum.

Það er mikilvægt fyrir okkur öll sem búum og störfum á vestnorræna svæðinu að átta okkur á því að við erum í alþjóðlegri samkeppni við önnur nálæg svæði um flutning á fólki og vörum og hið sama á við um undirstöðuatvinnugreinarnar okkar, sjávarútveg, ferðaþjónustu og orkuiðnað. Til þess að styrkja öll löndin þrjú þurfa innviðir að vera sterkir og samlegðaráhrifin geta orðið mikil á þessu sviði. Það er hægt að auka hagkvæmni á sviði samgangna og innviða með auknu samstarfi á vestnorræna svæðinu öllum til hagsbóta.

Ég vonast til þess að þingsályktunartillagan fái góða umfjöllun í utanríkismálanefnd og verði vonandi samþykkt í þinginu.