145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál.

77. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þriðju og síðustu þingsályktunartillögunni að þessu sinni frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Hún felur í sér tillögu um að styrkja samstarf milli landanna þriggja um sjávarútvegsmál.

Markmiðið með því er að nýta til fulls þá sérstöðu sem Vestur-Norðurlönd hafa sem sjávarútvegssvæði. Við leggjum því til að ríkisstjórnir landanna kanni, með því að láta fara fram greiningu, hvernig hægt er að styrkja samstarfið. Við teljum upp í stafliðum a–h hvað það er sem greiningin á að innifela, en það er meðal annars það að það beri að fjalla um samstarf á sviði sjávarútvegsmála, samstarfsmöguleika á sviði fiskveiðistjórnar, möguleika á sameiginlegu vestnorrænu vörumerki og sameiginlegri markaðssetningu fiskafurða, samstarfsmöguleika á sviði hafrannsókna, stöðu umhverfismála og sjálfbærni, kosti og galla aukins samstarfs um betri aðgang að mörkuðum, þar á meðal markaði Evrópusambandsins, möguleika á sameiginlegri stefnu og samningagerð á sviði sjávarútvegsmála og einnig fari fram greining á þeim sviðum þar sem löndin þrjú standa sterkari saman en ein og sér þegar kemur að sjávarútvegsmálum.

Við búum svo vel að við vorum með þemaráðstefnu í Grindavík um liðna helgi og gestur frá íslensku ríkisstjórninni var hæstv. sjávarútvegsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson. Það er óhætt að segja að ráðherrann hefur mikinn áhuga á því að löndin þrjú styrki samstarf sitt á þessu sviði. Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að ráðherra málaflokksins er áfram um að tillaga þessa efnis verði að veruleika. Það er alveg ljóst að löndin þrjú geta styrkt efnahag sinn til lengri tíma litið með því að hefja aukið samstarf.

Sérstaða svæðisins er sú að tekjur af fiskveiðum eru mun stærri hluti hagkerfa landanna þriggja en annarra landa á norðurslóðum sérstaklega. Fiskur og fiskafurðir eru 88% af útflutningi Grænlands, 41% af útflutningi Íslands og 94% af útflutningi Færeyja, en þetta eru tölur frá 2012.

Við teljum í Vestnorræna ráðinu að þau atriði sem talin eru upp, og við leggjum til að greiningin taki til, muni gefa okkur nægilegar niðurstöður þannig að við getum stigið skref fram á við. Við höfum á undanförnum árum, á samráðsfundum okkar, sérstaklega með Evrópusambandinu, verið að reyna að vinna sameiginlega að því að leysa þau deilumál sem þjóðirnar þrjár, annaðhvort hver og ein eða allar, hafa átt í við Evrópusambandið. Það sýnir okkur að við getum beitt okkur sameiginlega.

Það kemur líka fram að vegna breytinga á sjávarhita vegna loftslagsbreytinga þá sjáum við breytingar varðandi uppsjávarfiskinn; við getum talað um makrílinn o.s.frv. Við teljum að aukið vestnorrænt samstarf, um skiptingu uppsjávarfiskstofna, gæti falið í sér mikinn ávinning fyrir svæðið. En við viljum auðvitað að byggt sé á vísindalegri ráðgjöf og þekkingu og þar á meðal frá hafrannsóknastofnunum landanna þriggja og sameiginlegum rannsóknum. Það er rétt að við búum öll við sama hafsvæði og berum sameiginlega ábyrgð á að viðhalda þeim auðlindum sem hafsvæðið gefur okkur.

Hæstv. forseti. Ég vonast svo sannarlega til að þessi þingsályktunartillaga fái jákvæðar undirtektir og góða meðferð í utanríkismálanefnd.