145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

höfundalög.

333. mál
[17:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér kippu af málum sem snúa að höfundalögum og er ekki allt búið enn þó að þau þrjú sem hér eru dagskrá í dag séu tekin fyrir, það er meira á leiðinni.

Eins og hér hefur komið fram þá undirrita ég þetta álit með fyrirvara en er svo á þeim tveimur sem á eftir koma. Þessi fyrirvari minn lýtur að 9. gr. Kannski er vert að lesa hann hér upp en hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í þessu ákvæði felst almenn heimild til samninga er veita samningskvaðaleyfi í þágu fatlaðs fólks. Sambærilegt ákvæði er að finna í norskum og dönskum höfundalögum. Með ákvæðinu er heimiluð upptaka verka sem send eru út í hljóðvarpi og sjónvarpi ef til staðar er samningur sem uppfyllir skilyrði a-liðar 14. gr. frumvarpsins. Slíkar upptökur má aðeins nýta í þágu blindra, sjónskertra, heyrnarlausra og þeirra sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu. Sú heimild sem ákvæðið veitir gildir fyrir stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga og aðrar stofnanir sem starfa í almannaþágu, til nota innan viðkomandi stofnana. Ekki er áskilið að um opinbera stofnun sé að ræða en stofnanir sem reknar eru í hagnaðarskyni falla þó utan ákvæðisins. Jafnframt heimild til upptöku felur ákvæðið í sér heimild til dreifingar eintaka til einstaklinga er falla undir ákvæðið.“

Við sem höfum undirritað með fyrirvara teljum ekki nægjanlega langt gengið hvað varðar fatlað fólk og aðgang þess að hljóðbókum. Það er svolítið sérstakt að í nefndarálitinu kemur fram, og er vitnað til umsagnar Hljóðbókasafns Íslands, að Hljóðbókasafnið telur að það muni leiða til tvíverknaðar ef safnið þurfi ávallt að framleiða sínar eigin hljóðbækur í stað þess að nota upptökur sem gefnar eru út á almennum markaði.

Það var töluvert fjallað um þetta. Hér stendur að það sé þeim sem eru að gefa út í sjálfsvald sett hvort þeir afhenda frumútgáfu af útgefinni markaðsbók eða ekki. Ég man að mér var alla vega skylt að skila inn eintökum til safna, Landsbókasafnsins og fleiri, þannig að þar væru frumútgáfur geymdar. Þetta voru hljóðbækur sem ég gaf út, eða snældur reyndar á þeim tíma, það er svo langt síðan. En við þurftum að skila þessum eintökum af okkur þannig að þau væru til, t.d. á Amtsbókasafninu á Akureyri og eins hér á Landsbókasafninu, sendum svo reyndar í Hljóðbókasafnið, en ég man nú ekki hvort það var skylt.

En það er svolítið sérstakt, ef maður hugsar um þessi höfundalög og þennan rétt, ef það er skylt að afhenda frumútgáfur til þessara höfuðsafna — nú er Hljóðbókasafnið jú höfuðsafn þeirra sem nota hljóðbækur. Ég mundi gjarnan vilja í framhaldinu, þegar við förum aftur yfir málið, huga að því hvort það er eitthvað sem er hægt að lagfæra án þess að það kosti óskaplegar tilfæringar, þ.e. að höfundum verði líka gert skylt að skila þessu þarna inn ef um er að ræða hljóðbækur. Ég mundi alla vega vilja kanna það.

Ég tek undir sjónarmið hv. þingmanns, sem hér talaði á undan mér, þegar kemur að þessari lögbannsheimild, það kom fram að það hefði verið erfitt í framkvæmd. En ég treysti því að ráðuneytið vinni áfram með það mál eins og hér er lagt til og hefur verið rætt í nefndinni. Við sjáum það, þegar heildstætt frumvarp kemur fram eins og gert er ráð fyrir í haust, að þá verður þetta undir.