145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

höfundalög.

362. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti er varðar höfundalögin og lengingu verndartíma hljóðrita.

Tilgangur þessa frumvarps er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um breytingu á fyrri tilskipun um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda sem var tekin upp í viðauka um hugverkaréttindi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar árið 2013.

Það bar að innleiða þessa tilskipun í aðildarríkjum Evrópusambandsins eigi síðar en 1. nóvember 2013 en við fengum frest til 1. ágúst 2014 til að innleiða hana og það er því ljóst að við erum aðeins á eftir áætlun með innleiðinguna.

Meginmarkmið frumvarpsins er að leggja til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að sömu reglur gildi um útreikning verndartíma fyrir þá tvo verkhluta sem um ræðir, þ.e. tónverkið og textann. Kveðið er á um lengdan verndartíma hljóðrita fyrir listflytjendur og lengist verndartími hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi úr 50 árum í 70 ár. Þá er verið að reikna, eins og fyrr sagði, frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi. Jafnframt er mælt fyrir um sambærilega lengingu verndartíma fyrir framleiðendur hljóðrita.

Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um nauðsyn þess að kveða á um að verndartími tónverks með texta verði 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengur lifir. Við ræddum þetta nokkuð í nefndinni en við undirstrikum að frumvarpið felur ekki í sér breytingu á verndartíma höfundaréttar sem núna er 70 ár frá andlátsári höfundar, samanber 43. gr. laganna. Í ljósi þess að líta má á tónverk með texta sem tvö sjálfstæð verk getur verndartíminn reiknast sjálfstætt fyrir hvort verk og getur hann verið mislangur eftir andlátsári tónhöfundar og textahöfundar. Þess vegna er nauðsynlegt að kveða á um samræmdan verndartíma tónverks með texta þannig að þetta valdi ekki einhverjum vandkvæðum.

Við áréttum það í nefndaráliti okkar að frumvarpið kveður ekki á um lengingu verndartíma höfundaréttar heldur annarra skyldra réttinda, þ.e. flutningsréttar og framleiðendaréttar. Markmiðið er að draga úr hættu á að listflytjendur á hljóðritum missi mikilvægan tekjustofn seint á starfsævi sinni og hljóðrit séu þannig notuð til að vega að listamannsheiðri þeirra.

Það var bent á að ganga mætti lengra hvað varðar uppsögn á framsalssamningi útgefenda en tilskipunin kveður á um þar sem ljóst er að fjöldi hljóðrita er ekki fáanlegur á markaði þó að 50 ár séu ekki liðin frá fyrstu útgáfu. Við teljum þetta eitt af þeim atriðum sem ráðuneytinu ber að skoða í þeirri heildarendurskoðun höfundalaganna sem nú stendur yfir.

Við vekjum síðan athygli á því að við erum orðin aðeins of sein að innleiða tilskipunina og teljum því brýnt að málið klárist í þinginu, enda hefur Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnt ákvörðun sína um að Íslandi verði stefnt fyrir EFTA-dómstólnum vegna brots á EES-samningnum, en áður hefur stofnunin gefið út rökstutt álit um samningsbrot Íslands.

Við leggjum til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.