145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

höfundalög.

362. mál
[17:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á málið sem rætt var hér á undan, þ.e. um munaðarlausu verkin. Ég held að það sé afar mikilvægt að auka aðgengi að verkum sem annars hefði ekki verið hægt að nota af því að t.d. menningarstofnanir hafa ekki getað notað verk nema leitað hafi verið að rétthafa sem hefur jafnvel ekki fundist. Þess vegna hefur það stundum takmarkað aðgengi að mjög mikilvægum verkum sem hefðu getað nýst m.a. í skólum og á ýmsum öðrum stöðum eða við ýmsa aðra vinnu.

Ég held að það sé afar mikilvægt að þessi lög liggi fyrir. Þó að þetta sé kannski fyrst og fremst innleiðing er þetta eitt af því sem við höfum dregið of lengi að gera, eins og fram kom hjá framsögumanni, enda skrifuðum við öll í nefndinni upp á að mikilvægt væri að klára þetta.

Varðandi það sem hér er undir og ég skrifa upp á, þ.e. varðandi verndartímann, hefur mér fundist umræðan alltaf snúast um höfundarétt, að fyrst og fremst væri talað um að höfundarétturinn eigi að vera varinn. En það er ekki sundurliðað eins og hér er reynt að gera grein fyrir. Það gildir í rauninni ekki það sama um tvo aðila sem semja saman verk, tónverk og texta. Annar fellur frá en þá hefur verndunartíminn ekki náð til þessara beggja þátta.

Við þekkjum sögurnar af því þegar listamenn af ýmsum toga hafa jafnvel ekki orðið frægir fyrr en eftir andlát sitt og hafa kannski þá fyrst fengið viðurkenningu. Þetta er nú ekki svo stór atvinnuvegur hér á landi þannig að ekki sé ástæða til þess að lengja þetta af því að fólk byrjar misseint á ævinni. Ferill listamanna byrjar ekki alltaf þegar þeir eru afar ungir heldur eru þeir kannski orðnir fullorðnir þegar þeir koma fram á sjónarsviðið. Þá er óeðlilegt að verið sé að draga úr möguleikum fólks á að fá laun fyrir verk sín þegar það fer að nálgast lífeyrisaldur. Þess vegna held ég að þetta sé hið besta mál.

Við ræddum þetta mál heilmikið og voru skiptar skoðanir um það. Sumir vilja helst ekki hafa neinn verndunartíma, að þetta eigi í rauninni nánast að vera opið. En auðvitað er þetta eins og hver önnur hugsmíði sem fram fer, þ.e. maður býr til tóna og texta. Það eru mörg önnur verk höfundaréttarvarin, ekki bara bækur eða tónverk eins og hér er líka gert ráð fyrir.

Eins og ég sagði áðan gætir misskilnings um að verið sé að tala um höfundaréttinn sem er 70 ár nú þegar, þarna er verið að bæta inn tónsmíðum og textum.

Tekjustofn þessa fólks seint á starfsævinni verður rýrður ef höfundaréttur er ekki framlengdur og kom fram hjá nefndinni að sumir töldu að vegið væri að listamannsheiðri. Ég ætla ekkert að segja um það en mér finnst þetta fyrst og fremst snúast um möguleikann á að geta haldið tekjum sem ég held að séu ekki svo ýkja miklar hjá ansi mörgum.

Eitt af því sem við ræddum og er nauðsynlegt er að við samræmum verndartíma innan EES-ríkjanna. Þetta er ein leið til þess að gera það. Ég er alla vega ánægð og vona að þeir sem þetta á við um verði sáttir. Ég á ekki von á öðru en að málið fari í gegnum þingið með meiri hluta atkvæða.