145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og ég hef áður rætt í pontu þá hafa menntamálin verið mér hugleikin og kannski meðferð hæstv. ráðherra á þeim þar sem hann gerir gjarnan breytingar í gegnum fjárlög en ekki með þverfaglegri umræðu. Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að hann hefur fallist á þá tillögu sem samstarfshópur lagði fram á norðaustursvæðinu. Skipaður var starfshópur með heimamönnum og skólameisturunum er varðaði meðal annars menntaskólana á Tröllaskaga, á Akureyri og í Þingeyjarsýslunum, bæði í Laugum í Reykjadal og á Húsavík.

Í sem stystu máli þá hefur ráðherra fallið frá sameiningaráformum. Hann hefur sæst á þá niðurstöðu að skólarnir vinni saman en allir þeir sem að málinu hafa komið á þessu svæði telja það mun farsælla til framtíðar, bæði hvað varðar búsetu- og byggðasjónarmið og það auki valmöguleika og styrki alla faglega innviði miklu meira í staðinn fyrir að við hefðum staðið frammi fyrir miklum og tímafrekum stjórnsýslubreytingum.

Virðulegi forseti. Það er ánægjuleg staða að loksins sé komin fram einhver lokapunktur, alla vega í bili. Við verðum auðvitað að treysta því að svo verði áfram því að við búum við íbúafækkun mjög víða á þessum svæðum og þar af leiðandi fækkun nemenda. Þess vegna er samvinna skólanna afar mikilvæg til þess að nemendur geti sótt nám sitt með fjarnámi jafnvel eða í samvinnu við aðra skóla. Þannig að ég get ekki annað en fagnað því í dag að ráðherrann hafi látið sér segjast.


Efnisorð er vísa í ræðuna