145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í framhaldi af fréttaflutningi og af fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur til utanríkisráðherra um vissar styrkveitingar til gerðar heimildarmyndar um stöðu flóttafólks á Íslandi og verkefni í þróunarsamvinnu. Það er kvikmyndagerðarmaður, ágætis náungi, Árni Gunnarsson, sem fær styrk frá utanríkisráðuneytinu upp á 3 milljónir og 3 milljónir frá ríkisstjórninni til að gera þessar heimildarmyndir. Það er fínt að gerðar séu heimildarmyndir af þessu tagi, sem á m.a. að sýna í skólum og á RÚV, ég geri ekki athugasemdir við það, en ég geri þungar athugasemdir við það hvernig er staðið að styrkveitingum til þessara verkefna. Ég get ekki orða bundist. Mér blöskrar þetta.

Umræddur kvikmyndagerðarmaður er ágætisvinur hæstv. ráðherra, vann í sama starfi og hann sem aðstoðarmaður þáverandi félagsmálaráðherra, flokksbróðir og kemur líka úr Skagafirði eins og hæstv. ráðherra. Ég vil ekki svona þjóðfélag. Það er fullt af fólki á Íslandi með mjög góðar hugmyndir, sem langar að gera alls konar hluti, langar að gera heimildarmyndir, langar að gera kvikmyndir í fullri lengd og þar fram eftir götunum. Það á ekki að vera útslitaatriði hvort maður sé vinur ráðherra, hvort maður fái peninga til að gera svona hluti.

Þetta er eitt það fyrsta sem hæstv. ráðherra gerir við peninga sem renna til nýstofnaðrar þróunarsamvinnuskrifstofu sem var áður Þróunarsamvinnustofnun. Þetta er auðvitað blaut tuska í andlitið á öllum þeim sem gagnrýndu það að sú stofnun var lögð niður að nota fjármunina bara strax í kjölfarið og skrifstofan er sett á laggirnar til þess að deila út peningum til vina sinna. Mér finnst þetta ekki í lagi. Við eigum ekki að þola svona kjaftæði, við sem sitjum á Alþingi Íslendinga.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna