145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ágæta fyrirspurn og vil einnig hrósa henni fyrir það mál sem hún minntist á áðan, mál sem flokkur hennar, Vinstri grænir, hefur lagt fram um það að fólk geti búið saman á efri árum þannig að ekki sé verið að stía giftu fólki í sundur. Það er mjög gott málefni og það er mál sem ég mun tvímælalaust styðja hér.

Hún spyr hverjir eigi að fá umboðsmann. Í rauninni er ekki hægt að hafa neina tæmandi skilgreiningu á því. Umboðsmannakerfið er til staðar hjá okkur í dag. Það sem ýtti þessu máli úr vör var að þetta er mjög stór hópur og mun stækka alveg gríðarlega á næstu árum eins og fram kom í máli mínu áðan. Tugþúsundir manna verða komnar yfir 67 ára aldur eftir nokkur ár. Hagsmunir þessa fólks eru miklir, þetta er fólk sem er komið á þann stað í lífinu að það áttar sig ekki á breytingum í kerfinu og ekki hvert það á að leita.

Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að fólk hafi einn málsvara og þetta snýst um það. Ég ætla ekki þar með að útiloka að það geti þurft umboðsmenn fyrir fleiri hópa, alls ekki, en hins vegar eru takmörk fyrir því hvað við getum haft marga umboðsmenn. Það segir sig sjálft en ég tel að varðandi þennan hóp sé það algjörlega nauðsynlegt. Þar tala ég af eigin reynslu þar sem ég hef verið að annast mál fyrir fólk á þessum aldri og hef einmitt áttað mig á að það er ekki bara að þetta fólk átti sig ekki á réttindum sínum, heldur tók það mig margar vikur að finna út hvaða réttindi viðkomandi aðilar áttu í kerfinu. Þó ætti ég að vera þokkalega vel að mér í þeim málum.