145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Það getur nefnilega skipt máli. Við erum í tveimur tilfellum að tala um viðkvæma hópa sem hafa þurft, eins og fram kom í ræðu þingmannsins, og munu þurfa stuðning þegar þeir komast á efri ár. Eins og ég segi styð ég þetta og mér fannst góð grein formanns Félags eldri borgara sem hann vitnaði í.

Það er tvennt í þessu. Nú hafa verið lögð fram húsnæðisfrumvörp og undirliggjandi er að laga megi byggingarreglugerðina að því að hafa rýmin mjög lítil. Mér óar við að minnsta kosti einu sem þar er undir af því að ég vil horfa á það þannig að við séum ekki að skerða rými. Ég get hugsað mér það varðandi stúdentaíbúðir en ekki íbúðir sem við viljum að fólk geti búið í til framtíðar og geti fengið þjónustu heima hjá sér eins lengi og mögulegt er. Ég hef miklar áhyggjur af því að við förum inn í byggingarreglugerð og skerðum þar með húsnæði sem á að fara að rísa og spyr þingmanninn hvort hann telji ekki að þar sé meðal annars verið að takmarka aðstöðu eldra fólks til að minnka við sig, vera lengur heima o.s.frv.

Síðan verð ég auðvitað að spyrja í lokin, í ljósi allrar þeirrar umræðu sem við áttum hér um kjaramál eldri borgara og öryrkja fyrir jólin, (Forseti hringir.) hver hann haldi að niðurstaðan hefði orðið ef eldri borgarar hefðu getað skotið máli sínu til umboðsmanns eldri borgara.