145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að kannski sé ekki rétt að setja þetta alveg í samhengi við fyrirliggjandi húsnæðisfrumvörp. Ég held að lífsgæði eldri borgara séu alveg sérdæmi og það verði tekið fullt tillit til þeirra í þessum málum og varðandi þær heimildir sem mögulegar verða leyfðar um stærð íbúðarhúsnæðis og annað slíkt.

Þingmaðurinn veltir fyrir sér hver niðurstaðan í kjaramálum eldri borgara hefði orðið ef þeir hefðu getað skotið máli sínu til umboðsmanns aldraðra. Umboðsmaður aldraðra er ekki neinn dómstóll þannig að hann hefði í sjálfu sér ekki komið með neina ákveðna niðurstöðu í því máli, hann hefði hins vegar getað komið fram með upplýsingar um stöðu aldraðra, verið búinn að heyra ýmislegt um þau mál í þinginu, mjög misvísandi fullyrðingar um hver staða aldraðra er. Það hefði verið gott að hafa umboðsmanninn þótt ekki væri nema til þess að leggja fram upplýsingar sem allir geta verið sammála um og hefðu getað tekið tillit til í þeirri umræðu sem hér varð í kringum jólin.

Hann hefði fyrst og fremst nýst í slíkum tilfellum en ekki beint til þess að kveða upp einhvern úrskurð um hvort þeir hefðu átt að fá þessa prósentuhækkun eða hina eins og var í umræðunni fyrir jól.