145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurnina. Við tölum oft um aldraða og öryrkja sem eitt mengi, en þetta eru tveir ólíkir hópar. Þó að þeir fái lífeyri og annað slíkt eru þetta tveir ólíkir hópar, ólíkar þarfir o.s.frv. Þess vegna þótti mér rétt í þessu tilfelli að leggja til að þetta yrði bundið við aldraða. Ekki er þar með sagt að öryrkjar þurfi ekki sterka málsvara í kerfinu, þeir þurfa þess svo sannarlega og eiga það skilið líka, en mér þótti í þessu tilfelli betra að taka þennan ákveðna hóp út, og þá var ég að horfa svolítið mikið til þeirra vandamála, þeirra erfiðleika sem það fólk á í þegar kemur að réttindum þess. Fólk sem missir til dæmis maka og er í sárum þarf kannski viku eða tveimur vikum seinna að fara inn á einhverjar síður í kerfinu til að leita að réttindum sínum, eyða dögum í einhverja slíka hluti, það er gjörsamlega fáránlegt. Það er fyrir neðan allar hellur hvað kerfið sem við erum með er flókið. Það er það sem ég var að horfa á þegar ég settist niður út af þessu máli, að búa til eitthvert kerfi sem væri þannig að fólk, eldri borgarar, gæti leitað á einn stað, fengið allar nauðsynlegar upplýsingar hvert það á að leita, hvernig það á að fylla þetta og hitt út og hver réttindi þess væru. Það getur ekki verið svo flókið að við getum ekki sett upp slíkt kerfi.