145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls, Páli Val Björnssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir þeirra framlag. Ég get tekið undir nánast allt það sem þau hafa sagt úr þessum stól.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að hnykkja á í þessu máli. Það er rétt, sem hv. þm. Páll Valur Björnsson minntist á, að aldraðir hafa ekki samningsrétt, og því er mikilvægt að aðrir geti fjallað um þau mál. Að sama skapi er það rétt, sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist á, að umboðsmaður hefur ekki dómsvald. Umboðsmaður er heldur ekki kjaradómur. Við þurfum að hafa það alveg á hreinu. Hann getur komið með úrskurð um ýmis mál, en hann er ekki dómstóll og hann er ekki kjaradómur þannig að það sé alveg á hreinu.

Af hverju hefur þetta mál verið lagt svona oft fram hér á þingi og aldrei náð í gegn? Ég hef rætt við flutningsmann sem lagði þetta mál fram nokkrum sinnum á þingi og staðreyndin er sú, eins og við í þessum sal vitum, að um það bil 2–3% mála sem eru samþykkt hér á þinginu koma frá almennum þingmönnum, nánast öll mál, eða 95%, koma frá ríkisstjórninni. Það er því oft afskaplega erfitt fyrir þingmenn að ná slíkum málum í gegn. Ég held að það sé kannski ein af ástæðunum fyrir því að þetta mál hefur ekki náð í gegn. Mér heyrðist á viðkomandi, sem ég ræddi við, að mikill stuðningur hafi verið við viðkomandi frumvörp eða þingsályktunartillögur, en það hefði ekki dugað til þar sem málið hefði ekki komist á dagskrá og umræðan hefði ekki klárast.

Maður er líka alltaf hræddur um að stækka kerfið, að verið sé að búa til eina stóra stofnun í viðbót sem er ekki það sem ég hef í huga með þessari tillögu minni. Ég held, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist réttilega á, að þetta þurfi ekki endilega að vera stórt dæmi, að ekki þurfi mjög margir að vera í vinnu í þessu til að þetta geti skilað góðum árangri.

Fólk veltir þá fyrir sér: Hvað með aðra hópa, af hverju fá þeir ekki líka umboðsmann? Þá er rétt að geta þess að við erum með umboðsmannakerfi nú þegar. Við höfum verið með umboðsmann skuldara, umboðsmann barna og umboðsmann Alþingis þannig að þetta kerfi er við lýði hjá okkur og þetta er ekki neitt sem við erum að finna upp með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er.

Hvernig embættið verður nákvæmlega byggt upp? Þetta er þingsályktunartillaga sem gerir ráð fyrir því og óskar eftir því að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um þetta mál þar sem farið verði í gegnum það hvert hlutverk umboðsmanns aldraðra verður, þannig að það verði skilgreint nánar. Enn fremur er hægt að skilgreina það með reglugerð ef þörf krefur. Tilgangurinn með þessari tillögu er að hreyfa við málinu, koma því af stað og sjá til þess að ráðherra leggi frumvarp fyrir þingið innan skamms tíma.

Að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum sem komu hér upp og ræddu þetta mál fyrir þeirra stuðning. Ég er mjög ánægður með það og vona að málið fái góðan framgang.