145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga.

31. mál
[16:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur stundum fyrir í þingstörfunum að andsvar er svolítið skrýtið orð vegna þess að ég hef ekki sérstaka spurningu til hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og ætla ekki að mótmæla neinu af því sem hv. þingmaður sagði hér. Ég vil hins vegar taka undir hversu nauðsynlegt það er að afgreiða þessa tillögu sem fyrst. Ég vil benda á að tillagan hefur beðið hér síðan í október, ég held ég fari rétt með það, og ekki komist að, án þess að ég ætli að stofna til illinda út af því, vegna þess að önnur mál hafa þótt brýnni.

Ég get ekki séð, virðulegi forseti, hvaða önnur mál geta verið brýnni en að þessi þingsályktunartillaga komist til nefndar, því að hér erum við að tala um fólk sem býr við sjúkdóma og aðstæður sem eru óboðlegar. Þess vegna hvet ég nefndina til þess að afgreiða þetta mál sem fyrst þannig að við getum samþykkt það hér sem fyrst og það geti farið til ráðherra sem fyrst og að þeir sjúklingar sem á þessari aðstoð þurfa að halda fái hana sem fyrst.