145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga.

31. mál
[17:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa yfir fullum stuðningi við þetta mál og þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja það fram. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni Oddný G. Harðardóttur fyrir að rekja það mjög vel og einnig öðrum hv. þingmönnum sem rætt hafa þetta mál. Það er auðvitað er margt brýnt í þjóðfélagi okkar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, en þarna er ýmsu ábótavant. Það er mikilvægt að þetta mál verði unnið hratt. Í því samhengi er það eins og það er sett fram einmitt stuðningur við ráðherra til að bregðast hratt við og klára málið, vegna þess eins og fram hefur komið í umræðunni snýst það um að bæta það fyrirkomulag sem er til staðar. Þarna er pottur brotinn og málið snýst, eins og ávallt þegar kemur að slíkum málum, um mannréttindi og lífsgæði þeirra sem lenda í þessari alvarlegu stöðu.

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að málið fái hraðan og skjótan framgang og styð það heils hugar.