145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[17:36]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni kærlega fyrir að vera 1. flutningsmaður þessa máls og þakka honum líka fyrir að vekja athygli mína á málinu þannig að ég gat verið meðflutningsmaður, ég er mjög sátt við það.

Hér á Alþingi er starfandi, eins og hann sagði, þingmannahópur sem hefur það að meginverkefni að passa upp á málefni sem tengjast börnum og ungmennum. Eitt af því sem við teljum að sé mikilvægast í þeim efnum þótt af mörgu sé að taka — og á morgun verða sérstakar umræður um stöðu barna í samfélaginu — er einmitt það sem kemur fram í þingsályktunartillögu hv. þingmanns, að börnin fái fræðslu um réttindi sín.

Þessi þingsályktunartillaga er þverpólitísk og það eru allir, sem að þessum málum koma úti í samfélaginu, sammála um að það sé grundvallaratriði fyrir barn — til að geta staðið með sjálfu sér og látið vita ef ekki er allt í lagi í kringum það — að það viti hvaða rétt það hafi. Þessi réttur er mjög skýr, samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er því afskaplega mikilvægt að við fáum þetta samþykkt á þessu þingi þannig að þetta geti komist á laggirnar strax í vetur 20. nóvember, að börn fái á þessum degi uppfræðslu um réttindi sín samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.