145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

328. mál
[18:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og skil hann sem svo að sú vinna sé ef til vill eftir og að hann sjái fyrir sér að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari yfir þessi mál, þ.e. að kanna hvort lagalegar forsendur séu fyrir hendi til þess að banna beinlínis notkun á gúmmíkurli úr dekkjum.

Mig langar til þess að biðja hv. þingmann í sínu seinna svari við andsvari mínu að víkja orðum að því hversu raunhæfur tímaramminn er og hvort þessi tímamörk fyrir árslok 2016 séu hugsuð fyrir þann tíma sem ráðherra fær til þess að leggja fram áætlun sem miðar að því að dekkjakurli verði skipt út. Eða gerir hv. þingmaður ráð fyrir því að öllu gúmmíkurli hafi verið skipt út fyrir árslok 2016? Við erum náttúrlega komin inn á það ár og það er býsna brött áætlun ef svo á að vera.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann því að ég sé ekki að það komi fram í greinargerð með málinu, en ég býst við að hv. þingmaður þekki málið vel: Hversu mikið umfang er þetta verkefni? Hversu margir vellir eru þetta? Hversu mörg sveitarfélög eru þetta? Hversu mikið mál er að skipta út þessum völlum? Hvaða efni mundum við þá nota í staðinn? Sér hv. þingmaður fyrir sér einhverjar hindranir að því er varðar samráð, sem yrði væntanlega fyrst og fremst við íþróttafélögin og sveitarfélögin? Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um kostnað sem af þessu verkefni hlytist, sem er væntanlega eitt af þeim sjónarmiðum sem horfa þarf til?