145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

328. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Allar þessar spurningar hafa komið upp í ferlinu og eru mjög góðar. Auðvitað væri æskilegasta niðurstaðan sú af því að þetta er á borði fjölmargra aðila og það er síst af öllu tilgangurinn hér að — þessu máli er ætlað að kalla fram samvinnu og ná farsælli niðurstöðu af því að það er á borði sveitarfélaganna sem þurfa að byggja upp og fjármagna þessa velli. Það er auðvitað líka á borði íþróttayfirvalda og að þessu marki á vettvangi löggjafans, þar sem um er að ræða umhverfismál og mögulega hættu á nærumhverfi þessara valla og á heilsu þeirra sem nota vellina.

Sem betur fer hafa sveitarfélögin brugðist vel við og er víða farið að skipta út þessu efni fyrir hættuminna efni. Þetta hættuminna efni er svokallað iðnaðargúmmí sem við finnum til að mynda í þvottavélunum okkar. Það er efni sem er staðfest að hefur minna skaðleg áhrif. Auðvitað á maður að tala varlega varðandi öll svona efni vegna þess að maður er ekki búinn að lesa allar rannsóknir sem liggja undir í tengslum við þau. En það er almennur vilji til að leysa þetta mál, ég finn það. Svo kostar það auðvitað pening.

Hv. þingmaður kom inn á tímarammann. Vissulega er nokkur tími liðinn, eins og gjarnan vill verða þegar farið er af stað með mál. Síðan þá eru einhverjir mánuðir liðnir. Ég sé það fyrir mér að hægt verði að klára málið og banna notkun dekkjakurls og vinna það síðan með sveitarfélögunum, setja samráðsferli í gang og vinna út frá áætluninni og ljúka málinu í árslok (Forseti hringir.) 2016. Það má vel vera að endurskoða þurfi tímarammann af því að það er svolítill tími liðinn frá því að málið var lagt fram og þar til mælt var fyrir því. (Forseti hringir.)

Varðandi vellina er ég ekki með töluna hérna í gögnunum sem ég er með. Þetta voru tugir valla, en búið er að skipta út á mjög mörgum völlum. Ég get því ekki fullyrt um töluna akkúrat núna.