145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[10:34]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt sem fram kom í máli hans og eru ekki fréttir í þessum sal að náttúrupassafrumvarpið náði ekki fram að ganga á sínum tíma. Síðan þá hefur margt og mikið gerst á sviði ferðaþjónustu. Við höfum í samvinnu við greinina og sveitarfélögin í landinu kynnt stefnumótun til framtíðar, svokallaðan vegvísi í ferðaþjónustu, um þau brýnu verkefni og þær aðgerðir sem grípa þarf til til að tryggja viðhlítandi vöxt og viðgang þessarar mikilvægu atvinnugreinar. Ég verð að segja að það samstarf sem hefur tekist í kjölfarið með Stjórnstöð ferðamála og með þeim góða vegvísi sem við erum að vinna eftir hefur gengið afbragðsvel.

Það er alveg rétt sem fram kemur í máli fyrirspyrjanda, við þurfum að bæta í varðandi innviði. Við þurfum að bæta í ýmis mál sem hafa setið á hakanum og það erum við að gera. Við höfum tryggt aukna fjármuni í það.

Varðandi gjaldtöku á ferðamannastöðum þá kemur það skýrt fram í vegvísinum að leggja skuli áherslu á gjaldtöku fyrir virðisaukandi starfsemi. Það er það sem verið er að gera meðal annars á Þingvöllum. Þar er verið að leggja á gjald fyrir þjónustu til að mynda við bílastæði og við salerni. Varðandi tekjur af ferðamönnum er núna verið að vinna að breytingum á virðisaukaskattskerfinu sem þingmaðurinn þekkir væntanlega vel, bæði með því að hækka neðra þrepið, lækka efra þrepið og fækka undanþágum. Þessar breytingar standa yfir og gefa vonandi af sér frekari tekjur (Forseti hringir.) af þessari atvinnugrein. Varðandi gjaldtökumálið (Forseti hringir.) sem slíkt hefur ekki verið tekin ákvörðun um nýtt frumvarp í þeim efnum.