145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[10:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Til að taka af öll tvímæli: Nei, ég er ekki að boða frekari hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts. Ég var að lýsa því að þær breytingar hafa verið gerðar og nú er verið að fækka undanþágum sem munu skila auknum tekjum af ferðamönnum sem hingað koma til lands. Það má ekki gleyma því að við fáum nú þegar gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Þessi fræði eru engin geimvísindi. Það eru nokkrar leiðir til að innheimta tekjur af ferðamönnum. Allar hafa þær kosti og galla og það kom skýrt fram á sínum tíma þegar við vorum að ræða þessi mál. Ég lagði til leið náttúrupassa sem ég er enn þeirrar skoðunar að sé góð leið. Hún náði ekki fram að ganga og þá er það sú staða sem við erum að vinna með. Það eru kostir og gallar við að hækka gistináttagjaldið eða setja komugjald eða hækka skatta að öðru leyti. Þetta er eitthvað sem við munum án efa skoða í framtíðinni. Það sem mestu máli skiptir er að við erum að taka þessa atvinnugrein föstum tökum og tryggja innviðauppbyggingu og (Forseti hringir.) stuðning við greinina mjög vel með þeim aðgerðum sem við höfum lagt fram nú þegar.