145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

mótvægisaðgerðir vegna viðskiptabanns á Rússland.

[10:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er gott að við erum þó sammála um að það er fyrst og fremst landverkafólkið sem verður fyrir tjóni af völdum annars vegar loðnubrestsins sem hefði jú getað gerst hvort eð var og er því miður að gerast og hins vegar þeim aðgerðum sem Rússar gripu til gagnvart okkur og hafa augljóslega mest áhrif á Djúpavogi eins og sakir standa. Eins og skýrsla Byggðastofnunar sýndi mjög greinilega hefur þetta veruleg áhrif á landverkafólk og við höfum falið Byggðastofnun að fara betur yfir það. Meðal annars munum við halda íbúafund á Vopnafirði eins og ég nefndi, reyndar ekki á mánudaginn, ég held að ég hafi farið rangt með það, ég held að hann sé á þriðjudag í næstu viku. Við erum að reyna að finna einhverjar lausnir til þess að geta komið til móts við sérstaklega þau byggðarlög, þar með sveitarfélagið auðvitað, samfélögin, með einhverjum hætti. Við fólum Byggðastofnun að gera það og ég vænti þess að við munum geta skýrt frá því með heimamönnum í næstu viku.