145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

málefni barna.

[10:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra um málefni barna sem eru mér mjög hugleikin. Eins og oft hefur verið í samfélagslegri umræðu á Íslandi eru málefni sem varða börn og unglinga, samskipti þeirra og líðan, mjög í brennidepli. Við heyrum sögur um einelti, hópslagsmál, íkveikjur og kúgun. Þetta eru sögur sem hafa því miður verið að koma fram í dagsljósið og foreldrar lýsa því hvernig börn þeirra hafa þurft að ganga í gegnum ýmislegt sem er ekki æskilegt fyrir börn og unglinga.

Eitt af þeim verkefnum sem hafa tekið mjög markvisst á þessum vanda er ART-verkefnið á Suðurlandi. Það hefur verið á fjárlögum síðustu ár og var núna síðast inni á 20/20 áætlun síðustu ríkisstjórnar. Starfsmenn verkefnisins eru þrír og þeir sjá um ART-námskeið fyrir starfsfólk allra skólastiga, sjá um námskeið fyrir starfsfólk félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu og handleiða og styrkja það starfsfólk sem er að fara af stað með ART-þjálfun í fyrsta skipti. Annar mjög stór og mikilvægur þáttur í þessu verkefni er fjölskyldu-artið svokallaða þar sem teymið styrkir fjölskyldur með börn sem eiga í erfiðleikum í samskiptum, hafa slaka félagsfærni og eiga erfitt með að taka siðferðilegar ákvarðanir í daglegu lífi.

Nú hefur verkefnið verið starfrækt í töluvert langan tíma á Suðurlandi og er óhætt að segja að gríðarleg ánægja er með það á svæðinu. Það hefur skilað ofboðslega jákvæðum árangri. Meðal annars ályktaði ársfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um þetta mál í haust þar sem hann lagði gríðarlega mikla áherslu á að verkefnið fengi áfram framgang á fjárlögum og yrði til framtíðar. Þess vegna kom það mjög flatt upp á alla starfsmenn verkefnisins og fólks á Suðurlandi sem nýtur þessarar þjónustu að það átti að slá þetta af á síðustu fjárlögum. Þetta var ekki gert ráð fyrir þessu. Sem betur fer náðist að fjármagna verkefnið til næsta árs en mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér hún þetta verkefni fyrir sér? Sér hún fyrir sér að styrkja það til lengri tíma og gera jafnvel samning (Forseti hringir.) til nokkurra ára til að eyða þeirri ótrúlegu óvissu sem ríkir um þetta mál?