145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

framtíð sjávarútvegsbyggða.

[10:53]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um framtíð byggðanna í landinu, um sjávarútvegsmál í því samhengi. Nú er ljóst að ráðherrann hefur hætt við að leggja fram frumvarp um þær breytingar sem hann taldi að gera mætti á fiskveiðistjórnarlögum og þar með hefur ráðherrann og ríkisstjórnin sem hann situr í og flokkur hans endanlega skilað auðu í málefnum þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem hefur svo mikla þýðingu fyrir byggðir landsins og afkomumöguleika einstakra landshluta.

Til að forðast misskilning þá er ég ekki að leggja til að hæstv. ráðherra leggi aftur fram það frumvarp sem hann bauð þinginu upp á á sínum tíma, ég ætla ekki að kalla eftir því. En við vitum að gallar kvótakerfisins halda byggðum landsins mörgum hverjum í herkví, kerfið lokar á atvinnufrelsi manna og möguleika einstakra svæða til þess að nýta sér sjávarauðlindina sem er rétt við landsteinana. Úr því að ráðherra treystir sér ekki til að breyta sjálfu kvótakerfinu þá vil ég spyrja hvort hann treysti sér til annarra hluta. Þá er ég sérstaklega að hugsa um tvennt, það er í fyrsta lagi strandveiðarnar sem komið var á í tíð síðustu ríkisstjórnar og hafa komið mörgum byggðum til bjargar, hafa fært líf í hafnir landsins og orðið til þess að vinnslustöðvar sem áður voru lokaðar yfir sumartímann hafa getað haldið opnu. Hvernig sér ráðherrann fyrir sér framtíð strandveiðanna? Kemur til greina að festa þær enn frekar í sessi, rýmka reglur og lagfæra svæðaskiptingu til þess að auka jafnræði og atvinnumöguleika í byggðunum?

Eins vil ég nefna við ráðherrann þá möguleika sem komu upp í tíð síðustu ríkisstjórnar og hann tók auðvitað þátt í að ræða. Það var hugmynd sem ég lagði fram ásamt hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og endaði í (Forseti hringir.) frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnarlögum um 20 þús. tonna uppboðspott, sem ég held að gæti (Forseti hringir.) bjargað kvótalitlum og kvótalausum útgerðum (Forseti hringir.) að geta gengið í og boðið í.