145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

framtíð sjávarútvegsbyggða.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja það, og veit reyndar að við þingmaðurinn deilum ekki þeirri skoðun, að skoðun okkar er sú að það aflamarkskerfi sem við byggjum á í dag, kvótakerfið, sé mjög gott og engin ástæða til að breyta því. Það var ekki tilgangur stóra frumvarpsins. Það er hins vegar rétt hjá þingmanninum að út af stendur það viðvarandi verkefni ríkisvaldsins hvernig hægt er að tryggja byggðafestu í landinu. Þar skiptir sjávarútvegur miklu máli, þar skiptir landbúnaður miklu máli en ekki síður öll önnur starfsemi, ferðaþjónusta auðvitað en líka önnur starfsemi, sem við ætlumst til að sé hægt að stunda hvar sem er á landinu. Auðvitað tengjast þessi mál byggðaáætlun og ég veit að þingmaðurinn átti þátt í fundi sem við héldum sem fyrsta innlegg í vinnu við nýja sjö ára byggðaáætlun. Þar munu margir hlutir verða teknir upp.

Svo er það tæki sem ríkisvaldið hefur, það eru þessi 5,3% sem ríkið heldur á í öllum aflategundum og við beitum með ýmsum hætti í byggðakvóta, sérstakan byggðapott Byggðastofnunar sem kom til tals áðan, strandveiðar og línuívilnun og sitthvað fleira.

Verkefni vetrarins er að koma fram með þingsályktunartillögu í vor um hvernig við ætlum að nýta þetta sem best til lengri tíma. Í því skyni höfum við fengið Háskólann á Akureyri til þess að gera skýrslu um hvernig núverandi kerfi virkar. Það er margt jákvætt í þeirri skýrslu, þar kemur fram að kerfið virki á margan hátt, en misvel. Það var til dæmis sérkennilegt að sjá að strandveiðar, sem þingmaðurinn talaði heilmikið um, nýttust best í Reykjavík, þær voru sterkastar í Reykjavík. Ég veit að það var ekki tilgangurinn með því að setja þær á, en það var áhugaverður aukapunktur. (Forseti hringir.) Við erum að fara yfir þetta og hefja þessa vinnu. Ég treysti (Forseti hringir.) því að við getum átt gott samtal í þinginu um það hvernig við getum tryggt byggðafestu með sem skýrustum hætti.